Lögreglan varð að beita rafbyssu á mann í Helluhverfi í Hafnarfirði á mánudag.
Að sögn Skúla Jónssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns var maðurinn vopnaður tveimur hömrum og hlýddi ekki fyrirmælum lögreglu.
Maðurinn réðist þá að lögregluþjónum með hamrana á lofti að sögn Skúla.
Lögregla yfirbugaði þá manninn með rafbyssu og var hann í kjölfarið vistaður á viðeigandi heilbrigðisstofnun.
„Hann var bara vitu sínu fjær, vonandi fær hann hjálp,“ segir Skúli í samtali við mbl.is.
Skúli segist ekki vita um ástand eða líðan mannsins í dag, og ekki vita til þess að hann hafi verið undir nokkrum áhrifum áfengis eða vímuefna.
Um er að ræða þriðja sinn sem rafbyssu er beitt af lögreglu á Íslandi, en Vísir greindi fyrst frá því og hafði eftir embætti ríkislögreglustjóra.
Rafbyssur voru teknar í notkun hjá íslensku lögreglunni í byrjun september á síðasta ári og var slíku beitt í fyrsta skipti á landinu þann 17. desember.