„Ég veit ekki alveg hvað gerðist, út af hverju þorskurinn varð svona vinsæll á Íslandi. Þorskurinn er langvinsælasti fiskurinn í dag. Lax númer tvö og svo ýsa, allavega í minni verslun,“ upplýsir Kristján Berg, Fiskikóngurinn sjálfur.
Kristján var gestur Dagmála nýlega og fór um víðan völl. Þegar umræðan barst að fiski og neysluvenjum Íslendinga voru svörin á reiðum höndum.
Eldislax?
„Já. Eldislax er orðinn þannig að hann er miklu betri en villtur lax, að mínu áliti.“
Það líkar nú ekki öllum að heyra þetta.
Kristján hlær. Hann bendir á að lax hafi verið mikið veiddur hér áður fyrr og ekkert laxeldi hafi verið stundað fyrr en seint á síðustu öld. „Það er svo sérstakt bragð af villtum laxi og sumir sækjast í það bragð og borða þá bara lax á sumrin. Eldislaxinn er aðeins feitari en það er kominn meiri skilningur og tækni með laxinn í dag. Hann er ekki eins feitur. Hann er líkari þeim villta. Ef þú borðar alltaf villtan þá viltu ekki eldis og ef þú borðar alltaf eldis þá villtu ekki villtan. Kúnnahópurinn okkar er alveg meðvitaður um það og segir okkur frá því þegar við erum að afgreiða,“ upplýsir Fiskikóngurinn.
Kristján kannast við umræðuna um að fiskur sé dýr. Heyrir viðskiptavini tala um það á hverjum degi. En Kristján spyr á móti. Miðað við hvað? Hann viðurkennir að í samanburði við verð á pasta þá sé hann dýr. „Miðað við kjöt? Ok, hvaða kjöt? Þú verður að athuga að íslenskur fiskur er ómenguð villibráð,“ bendir hann á.
Kristján ber saman niðurgreiðslur á íslensku lambakjöti sem hann segir að nemi átta þúsund milljónum króna árlega frá íslenska ríkinu. „Fiskur. Núll krónur.“
Í þeim hluta viðtalsins sem fylgir fréttinni fer Fiskikóngurinn yfir þessa hluti. En hann ræðir líka þá breytingu sem hefur orðið samfara því að fleiri erlendir ríkisborgarar hafa komið til Íslands og þar er á ferðinni fólk með annan matarsmekk og aðrar venjur. Þannig er karfi allt í einu farinn að seljast betur á meðan að Íslendingar, bornir og barnfæddir eru hálf smeykir við karfann.
Viðtalið í heild sinni er aðgengilegt fyrir áskrifendur Morgunblaðsins og hægt að hlusta á það með því að smella hér að neðan.