Tók upp átta lög og missti svo röddina

Jóhannes S. Ólafsson er bæði texta- og lagahöfundur.
Jóhannes S. Ólafsson er bæði texta- og lagahöfundur.

Fimmta lagið á fyrstu plötu textasmiðsins og lagahöfundarins Jóhannesar Stefáns Ólafssonar hæstaréttarlögmanns er væntanlegt á streymisveitunni Spotify í byrjun mars en stefnt er að því að öll átta lögin verði komin í streymi í vor og þá verði vínilplata fáanleg.

„Ég lamaðist 1. desember síðastliðinn, einungis þremur dögum eftir upptöku á söngnum í laginu „Sestu hjá mér“ sem ég samdi til Sigrúnar konu minnar, en þá hafði ég sem betur fer klárað upptökur á hinum sjö lögunum af plötunni Oak in the Snow,“ segir hann.

Tónlist hefur fylgt Jóhannesi frá barnsaldri. Hann byrjaði snemma að spila á píanó og fljótlega bætti hann gítarnum við. „Ég spilaði í hljómsveitum og kom fram á mörgum stöðum; á börum, í brúðkaupum og víðar, en gaf aldrei neitt út,“ rifjar hann upp, en lögin eru meðal annars á síðum hans á Facebook og Instagram.

Guðrún Bjarnadóttir syngur með Jóhannesi í flestum lögunum.
Guðrún Bjarnadóttir syngur með Jóhannesi í flestum lögunum.

Ekki söngnum að kenna

Jóhannes útskrifaðist úr lagadeild Háskóla Íslands 2008 og þá vék tónlistin fyrir vinnu og fjölskyldu, en eiginkona hans er Sigrún Jóhannsdóttir lögmaður og eiga þau þrjú börn. „Ég var sísyngjandi með gítarinn en svo stoppaði ég eins og skrúfað væri fyrir krana og eftir því sem tíminn leið var erfiðara að byrja aftur,“ segir hann. Langan tíma hafi tekið að komast yfir þröskuldinn, en löngunin hafi verið öllu öðru yfirsterkari. „Það tók mig um mánuð að syngja mig til og allt í einu hrökk ég í gang í fyrra, keyrði á fullu og var kominn með efni á tvær plötur á hálfu ári þegar röddin gaf sig. Þegar ég vaknaði 1. desember gat ég ekki talað. Í miðju partíinu gat ég bara rétt hvíslað. Búmm. Þetta var galið.“

Raddleysið hafði ekkert með söngálagið að gera heldur var þetta taugalömun í raddbandi og tíminn var algjör tilviljun. Röddin hefur komið smám saman og Jóhannes er bjartsýnn á að hann nái fyrri styrk með tímanum, helst án aðgerðar. 

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út fimmtudaginn 27. febrúar. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert