Ætluðu að láta Selenskí ganga á dyr

Samsett mynd

„Maður er hálf orðlaus. Auðvitað er þetta í takti við það hvernig Trump hefur komið fram við hina og þessa en það er augljóst að hann lítur ekki á Selenskí sem jafningja, heldur einhvern sem er honum undirsettur og telur sig þannig þess umboðinn að geta skipað honum fyrir.“

Þetta segir Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor í alþjóðasamskiptum við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.

Donald Trump Bandaríkjaforseti og varaforseti hans J.D. Vance, virtust hafa ein­sett sér að niður­lægja Volodimír Selenskí Úkraínu­for­seta á fundi þeirra í gær. Á það bentu fjölmargir, meðal annars Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra í samtali við mbl.is.

„Að einhverju leiti finnst manni kannski að ætlunin hafi verið að láta Selenskí ganga á dyr og sýna þannig fram á að hann sé ekki marktækur viðsemjandi heldur dyntóttur,“ segir Silja Bára.

Telur hún að ef einhver lógík hafi verið á bakvið atburðarás fundarins hjá Trump og hans fólki hafi ætlunin verið að sýna fram á að Selenskí væri of stoltur og hrokafullur til að láta bjóða sér framkomuna.

Ef forsetinn úkraínski gengi á dyr væri Trump þá búinn að sýna fram á að eini rökhyggni viðsemjandinn í átökunum væri Vladimír Pútín og þannig gæti Trump réttlætt að ræða við Pútín án Selenskí.

Kærastinn svarf til stáls

Það virkaði þó ekki og Donald Trump þurfti sjálfur að vísa Selenskí á dyr. Þannig segir Silja Bára að Trump komi fram sem skaphundurinn sem nái ekki samningum og nái ekki að ljúka því sem hann ætlaði sér.

„Það er með meiri niðurlægingu sem hann getur ímyndað sér miðað við hans sjálfsmynd og hvernig hann setur sig fram sem meistara samningana.“

Silja Bára segir ótrúlegt að hafa fylgst með fundi leiðtogana þar sem blaðamaður hafi m.a. ráðist að Selenskí og fundið að klæðaburði hans. Sagt Selenskí sýna Bandaríkjunum vanvirðingu með því að klæðast ekki jakkafötum í Hvíta húsinu og meira að segja spurt hvort hann ætti jakkaföt.

Af þessu hlógu viðstaddir, meðal annars J.D. Vance varaforseti, hvað sem fólki kann að finnast um það.

Selenskí svaraði því kurteisislega til að hann myndi klæðast jakkafötum þegar stríðinu væri lokið. Þá sagðist hann kannski myndu klæðast sams konar jakkafötum og blaðamaðurinn en kannski betri jakkafötum.

Blaðamaðurinn sem um ræðir var raunar ekki bara hver annar blaðamaður heldur Brian Glenn, þáttastjórnandi hjá „Real America's Voice“, öfgahægri kapal-sjónvarpsstöð vestra og það sem skiptir mestu máli, kærasti Marjorie Taylor Greene, öfgahægri-fulltrúadeildarþingmanns Repúblikana á bandaríska þinginu.

Marjorie Taylor Greene réðst raunar út á ritvöllinn á vettvangi X og hrósaði sínum manni í bak og fyrir. Í leiðinni notaði hún tækifærið og sparkaði í Selenskí og gerði lítið úr honum.

Þrasað um þakkir

Á einhverjum tímapunkti á fundinum spurði Vance varaforseti Selenskí hvort hann hafi þakkað fyrir sig og Selenskí svaraði því til að það hafi hann margsinnis gert og meira að segja fyrr um daginn.

Silja Bára segir það rétt og að Selenskí hafi einmitt hafið sitt ávarp með því að segjast vera þakklátur Bandaríkjunum og bandarískri þjóð fyrir þann stuðning sem Úkraínu hafi verið veittur.

Höft á sölu hergagna

Þar sem Evrópuríki framleiða ekki næg hergögn til að styðja Úkraínu beint veltir hún fyrir sér hvort Trump sé að fara að setja viðskiptahöft á sölu hergagna.

„Evrópuríkin þurfa að kaupa öll hergögn af Bandaríkjunum ef þau ætla að halda áfram að styðja hernaðarlega við Úkraínu.

Bandaríkjamenn vilja frekar láta Evrópu kaupa af sér vopn en að skrifa upp á óútfylltan tékka fyrir Úkraínuher.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert