„Ég er afar undrandi yfir því að ráðuneytið átti sig ekki á því að staðsetning á meðferðarheimili í Garðabæ hefur legið fyrir frá því áður en viljayfirlýsingin var undirrituð í desember 2018,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri í Garðabæ í samtali við mbl.is.
Garðabær vilji gjarnan vinna málið hratt og vel áfram, en það hafi verið í biðstöðu í tvö ár þar sem fjármálaráðuneytið hafi ekki brugðist við fyrirspurnum sveitarfélagsins.
Í gær var greint frá svari mennta- og barnamálaráðuneytisins um stöðuna á nýju meðferðarheimili fyrir börn með fjölþættan vanda sem fyrirhugað var að risi í Garðabæ, og vonir stóðu til að yrði tilbúið árið 2020.
Í svarinu kom fram að aldrei hafi náðst samkomulag um meðferðarheimilið eða staðsetningu þessu. Ekki lægi enn fyrir hvar heimilið myndi rísa, en að sá möguleiki væri enn fyrir hendi að það risi í Garðabæ.
Þetta kom Almari spánskt fyrir sjónir, þar sem hann taldi málið vera í farvegi hjá bæði hjá mennta- og barnamálaráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu. Samkomulag um staðsetningu hafi legið fyrir en aðeins hafi átt eftir að greiða úr fyrirkomulagi varðandi kostnað við gatnagerðargjöld.
„Það var útgangspunktur málsins frá hugmyndastigi að lóðin yrði efst á Rjúpnahæð og í dag er þetta lóðin að Friðarvöllum 1. Það hefur algjörlega legið fyrir að staðsetningin er algjörlega klár. Þannig mér þykir leiðinlegt að ráðuneytið kannist ekki við staðsetninguna lengur,“ ítrekar Almar.
Í kjölfar þess að viljayfirlýsing um byggingu meðferðarheimilisins var undirrituð árið 2018 var hafist handa við skipulag svæðisins af hálfu Garðabæjar og vinnu við það lokið um tveimur árum síðar.
„Varðandi ferli málsins þá áttum við í mjög miklum samskiptum við mennta- og barnamálaráðuneytið árið 2023, sem snerust um tilhögun lóðarinnar og nánari skilgreiningar. Það var vinna sem var afskaplega góð og jákvæð af hálfu beggja aðila. Við urðum ekki vör við annað,“ segir Almar og heldur áfram:
„Síðan gerðist það síðar, sem er alveg eðlilegt í svona máli, og við höfum verið lausnamiðuð í því, að fulltrúar fjármálaráðuneytisins fóru að spyrja um gatnagerðargjöld og innheimtu þeirra af okkar hálfu. Það samtal var í gangi og það hefur ekki verið klárað.“
Ýtt hafi verið við fulltrúum fjármálaráðuneytisins að minnsta í tvígang frá árinu 2023, en engin svör hafi borist.
Á þeirri lóð sem um ræðir er engin gatnagerð. Svæðið er óbyggt holt eins og staðan er núna og þarf því að ráðast í gatnagerð frá grunni.
„Það er ástæða þess að hún er fyrirferðarmeiri kostnaðarlega heldur en í sambærilegum málum og við höfum viljað finna lausn á því í samvinnu við ráðuneytin tvö,” segir Almar og vísar þar til fjármála- og mennta- og barnamálaráðuneytisins.
„Við erum með meðferðarheimilið í skipulagi og myndum gjarnan vilja koma þessu góða máli áfram. Við þekkjum það af umræðunni að það er miður að okkur hafi ekki tekist að fara hraðar yfir í málum sem þessum.“