„Blásaklaus stúlka dó vegna hnífaárásar á Menningarnótt. Við stöndum öll frammi fyrir þeirri áskorun að skoða samfélagsgerð okkar og rýna í allt það sem betur má fara.
Stærsta og flóknasta hlutverk sem við tökum að okkur á lífsleiðinni er að gerast forsjáraðilar barns. Siðferðisstig þjóðarinnar ræðst af því hversu vel okkur tekst að hlúa að okkar minnstu bræðrum og systrum.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í áhrifamikilli aðsendri grein Dagnýjar Hængsdóttur Köhler á Vísi í morgun.
Dagný stígur fram sem fagaðili, hjúkrunarfræðingur í geðþjónustu en einnig er hún amma drengsins sem varð Bryndís Klöru Birgisdóttur að bana á Menningarnótt í ágúst á síðasta ári.
Kýs Dagný að svara kallinu og gerast riddari kærleikans eins og faðir Bryndísar gerði ákall um.
Segist hún með skrifum sínum hvorki draga úr ábyrgð dóttursonar síns né setja fram afsakanir. Vottar hún í inngangi greinarinnar aðstandendum Bryndísar Klöru sína allra dýpstu samúð.
Dagný segir að markmið hennar með skrifunum sé skýrt. Hún vilji stuðla að breytingum sem vonandi bjarga mannslífum og heiðra minningu Bryndísar Klöru Birgisdóttur, sem lést sem saklaust fórnarlamb hörmulegra aðstæðna.
Lýsir hún hinum voveiflega atburði sem stjórnlausri hegðun dóttursonar síns, sem hafi á þeim tíma verið í mjög alvarlegum vanda, sem hefði verið hægt að taka mun betur á.
„Mig dreymir um nauðsynlegar úrbætur til byggja upp betra velferðarkerfi sem mætir betur og markvissar þörfum barna sem m.a. eiga foreldra með fíkni- og geðrænan vanda.“
Segist hún annars vegar geta nýtt sína menntun og faglegu reynslu sem heilbrigðisstarfsmaður í geðþjónustu og hins vegar hina ólýsanlega hörðu reynslu sem aðstandandi geranda í djúpum vanda.
Það er gríðarlega mikilvægt að samfélagið allt og stjórnvöld nýti þessa hörmungarsögu til að læra af að mati Dagnýjar. Segir hún að fara þurfi allar færar leiðir til að styðja betur við þarfir barna og forsjáraðila í vanda.
Dagný víkur máli sínu að sögu dóttursonar síns, sem hún segir því miður ekki einsdæmi, miðað við reynslu sína sem starfsmaður í geðheilbrigðisþjónustu.
Segir hún að alvarleg vangeta forsjáraðila dóttursonar síns, og vísar þar til dóttur sinnar, hafi fengið að viðgangast allt of lengi með of vægum inngripum af hálfu barnaverndar. Segir hún föður drengsins ekki hafa sinnt honum í mörg ár og að hann hafi orðið vitni af andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi gegn móður sinni.
Segir hún ACE-stig dóttursonar síns líklega hafa verið orðin 8 fyrir fermingu en ACE (Adverse Childhood Experiences) eru 12 tegundir af alvarlegum áföllum, sem eiga sér stað í æsku (fyrir 18 ára aldur) og geta haft langtímaáhrif á heilsu, hegðun og líðan einstaklings. Þarna geti verið um að ræða áföll á borð við misnotkun og vanrækslu til geðrænna áskorana forsjáraðila. ACE-áföll geti haft veruleg áhrif á heilaþroska, stjórnun tilfinninga og líkamlega heilsu.
Dagný segir rannsóknir undirstrika mikilvægi snemmtækrar íhlutunar og stuðnings fyrir börn sem hafa orðið fyrir neikvæðri reynslu til að draga úr líkum á ofbeldishegðun síðar á ævinni.
Amma drengsins spyr sig hvernig það megi vera að aldrei hafi verið gert forsjárhæfnimat eða geðrænt mat á móður til að sjá hvernig og hvort færni hafi verið til staðar til að sinna þörfum drengsins á nauðsynlegan og heilbrigðan hátt?
Amma drengsins spyr sig hvernig það hafi mátt vera að margdæmdur ofbeldismaður og góðkunningi lögreglunnar byggi á heimilinu með vitneskju barnaverndar, án þess að barnið væri verndað?
Amma drengsins spyr sig hvort starfsmenn barnaverndar hefðu treyst eigin börnum til að búa með þannig manni?
Alvarlegast segir hún þó að drengnum hafi verið leyft að flytja aftur til móður sinnar haustið 2021, eftir að hafa verið í góðu fóstri hjá ættingjum í 2 ár, þar sem hann sýndi miklar framfarir.
Hann hafi farið aftur inn á heimili móður sinnar án þess að tryggt hafi verið að hæfni hennar, geta til framfærslu og geðrænt ástand hafi verið nægjanlega stöðugt til þess að veita honum þá nauðsynlegu umönnun sem hann svo sárlega þurfti.
„Sú ráðstöfun barnaverndar dugði í 6 mánuði sem endaði í fyrirvaralausri fangelsisvist móður.“
Móðir drengsins var fangelsuð í 20 mánuði rétt eftir að hann fermdist vorið 2022. Þrátt fyrir þá grafalvarlega forsögu segir Dagný að barnavernd hafi ekki leyst forsjána til sín, heldur hafi eini forsjáraðilinn hans verið móðir í fangelsi erlendis.
Drengurinn hafi komið í fóstur á heimili fjölskyldu Dagnýjar, tættur og týndur í sjálfum sér. Hann hafi tekið ágætum framförum það ár en hún segir ljóst að vandi hans hafi verið mikill.
Síðan hafi hann farið á heimili föður síns og stjúpmóður sem þá var nýlega komin aftur í hans líf eftir margra ára fjarveru.
Við heimkomu móður hans í janúar á síðasta ári hafi engin afskipti verið að hálfu barnaverndar. Móðirin hafi fengið drenginn til sín og hann lokað á föður sinn en eftir það hafi líf hans verið í frjálsu falli.
„Tilkynningu okkar til barnaverndar sl. vor var ekki sinnt. Faðir bar áhyggjur sínar undir barnavernd, en orð hans afgreidd sem forsjárdeila. Eftir á að hyggja hefðum við átt að senda inn miklu fleiri tilkynningar til barnaverndar og brýna áköll okkar um aðstoð.“
Þegar ekki er unnið úr áföllum geta áhrif þeirra flust á milli kynslóða að sögn Dagnýjar. Þá sé talað um millikynslóða flutning.
Segist hún ekki ætla að ræða sögu dóttur sinnar ítarlega en þó megi upplýsa að um hafi verið að ræða 24 ára langa þögn um mjög alvarleg áföll og brot gagnvart henni í bernsku.
Áföll sem urðu mikill áhrifavaldur í hennar erfiðleikum og fíkniefnaneyslu og skerti færni hennar til að sinna sínu barni. Áföll sem fyrst komu fram í dagsljósið síðasta sumar. Áföll sem enginn vissi um nema hún og hennar gerendur.
Dóttir Dagnýjar hefur fengið brotakennda þjónustu í velferðarkerfinu en von Dagnýjar stendur til þess að hún fái loksins þá öflugu hjálp frá geðheilbrigðiskerfinu sem hún þarfnast. Hjálp, sem hún nauðsynlega þurfti fyrir öllum þessum árum.
Dagný segir að áfallaupplýsta umönnun þurfi að setja í forgang. Það þýði að heilbrigðis- og félagsþjónusta verði að skoða, meta og taka á áhrifum áfalla í lífi þeirra skjólstæðinga.
Markmiðin séu að bæta bæði andlega og líkamlega heilsu.
Hugmyndir Dagnýjar til að mæta þessum stóru markmiðum:
Efla þarf þverfaglega þjónustu í barnavernd og bæta inn fagstéttum sem hafa sérþekkingu í að meta áföll og áhrif þeirra á börn og forsjáraðila þeirra.
Sérstaklega þarf að skoða áfallasögu forsjáraðila. Áfallasérfræðingar og fjölskyldufræðingar ættu að starfa innan barnaverndar auk barna- og unglingageðlækna, fullorðins geðlækna, geðhjúkrunarfræðinga og annarra sérfræðinga sem hafa til þess bæra þekkingu.
Þessar fagstéttir hafa þekkingu til að meta aðstæður og bregðast við geðheilbrigðisvanda, bæði hjá barninu og umönnunaraðila þess.
Þannig væri hægt að meta með betri hætti færni og getu umönnunaraðila til að mæta þörfum barna, og stíga þá fastar inn með nauðsynleg úrræði til að koma í veg fyrir að barnið skaðist.
Auknar lagaheimildir þarf fyrir barnavernd til að upplýsa aðra fjölskyldumeðlimi um erfiðar aðstæður barns, þegar öryggi þess er ógnað. Barn sem býr við erfiðar aðstæður ætti ekki að vera einkamál forsjáraðila þess, þó málið sé viðkvæmt. Leyndarhyggja og trúnaður um slæmar uppeldisaðstæður barns er ekkert annað en meðvirkni og vinnur gegn hagsmunum barnsins.
Barnahús þarf að aðstoða öll börn sem orðið hafa fyrir alvarlegum ACE áföllum, en ekki aðallega vegna kynferðisofbeldis. Búum til Barnahús sem hjálpar til við öll alvarleg áföll.
Búum líka til áfallamiðstöð fyrir fullorðna, sem eru skaðaðir vegna áfalla úr sinni æsku og öðrum áföllum. Slík þjónusta er undirstaða fyrir góða forsjárhæfni. Ég legg til að slík stofnun heiti „Bryndísarhús“.
Að lokum segir Dagný í grein sinni að þjóðarsorg hafi ríkt á Íslandi vegna þessa máls. Blásaklaus stúlka hafi dáið vegna hnífaárásar á Menningarnótt. Öll stöndum við frammi fyrir þeirri áskorun að skoða samfélagsgerð okkar og rýna í allt það sem betur má fara.
Hún hafi leitast við að leggja sitt lóð á vogarskálarnar til þess að bæta aðbúnað að börnum.
„Uppeldi barna leggur grunn að þeirri samfélagsgerð sem við viljum helst lifa í. Það eru jú þau sem hlúa að okkur þegar við eldumst, og það er þeirra að skapa framtíðar samfélagið næstu áratugi.
Gerumst öll friðflytjendur og riddarar kærleikans eins og foreldrar Bryndísar Klöru hafa gert ákall um. Björgum mannslífum.“