Mennta- og barnamálaráðherra hefur ekki svör við því af hverju ósamræmi er á milli svara ráðuneytisins og sveitarfélagsins Garðabæjar varðandi stöðuna á nýju meðferðarheimili sem stóð til að byggja.
Samkvæmt svörum ráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is, og greint var frá í dag, um stöðuna á meðferðarheimili fyrir börn með fjölþættan vanda, sem stóð til að reisa í Garðabæ, hefur ekki náðst samkomulag um fyrirhugað heimili eða staðsetningu þess.
Almar Guðmundsson, bæjarstjóri í Garðabæ, segir staðsetningu heimilisins hins vegar hafa legið fyrir áður en viljayfirlýsing um byggingu þess var undirrituð í desember 2018.
„Það var útgangspunktur málsins frá hugmyndastigi að lóðin yrði efst á Rjúpnahæð og í dag er þetta lóðin að Friðarvöllum 1. Það hefur algjörlega legið fyrir að staðsetningin er algjörlega klár. Þannig mér þykir leiðinlegt að ráðuneytið kannist ekki við staðsetninguna lengur,“ sagði Almar í samtali við mbl.is.
Þegar Ásthildi Lóu Þórsdóttur, mennta- og barnamálaráðherra, er tjáð að ósamræmi sé í svörum frá ráðuneytinu og sveitarfélaginu Garðabæ, og hún og innt viðbragða við því, segist hún ekki getað svarað betur fyrir málið eða brugðist við með öðrum hætti en að vísa í svör ráðuneytisins. Málið hafi komið til löngu fyrir hennar tíð sem ráðherra og því geti hún ekki svarað fyrir það.
„Ég hef engin önnur svör en það, það eru einu svörin sem ég hef,“ segir Ásthildur í samtali við mbl.is, og vísar þar til svara ráðuneytisins.
Hér má sjá svör ráðuneytisins við eftirfarandi spurningum:
Hver er staðan á því verkefni?
Stendur enn til að reisa slíkt meðferðarheimili í Garðabæ?
Ef ekki, hefur því verið fundin ný staðsetning?
Er fjármagn til fyrir þeim framkvæmdum?
„Stjórnvöld vinna að fjármögnun tillagna stýrihóps á vegum mennta- og barnamálaráðuneytisins um heildarendurskoðun þjónustu við börn með fjölþættan vanda. Þeim tillögum er ætlað að taka heildstætt á þeim vanda sem börn sem ekki fá rétta þjónustu á réttum tíma standa frammi fyrir. Það nær m.a. til meðferðarheimila og biðlista.
Ekki var komið samkomulag um fyrirhugað meðferðarheimili í Garðabæ eða staðsetningu þess. Þau áform eru nú hluti af heildarendurskoðuninni. Haldið hefur verið sérstaklega utan um það fjármagn sem ætlað var í meðferðarheimilið á sínum tíma og hefur því ekki verið ráðstafað. Meira fjármagn þarf hins vegar í framkvæmdina.“
Í framhaldinu var óskað skýrari svara með eftirfarandi spurningum:
En það er þá rétt skilið hjá mér að það er óvíst hvort nokkuð meðferðarheimili fyrir börn með fjölþættan vanda rísi í Garðabæ?
Eða er enn verið að horfa til þess að því finnist staður í Garðabæ?
Er verið að skoða aðrar staðsetningar fyrir heimilið?
„Ekki liggur fyrir ákvörðun um hvar nýtt meðferðarheimili muni rísa, sá möguleiki er enn fyrir hendi að það verði í Garðabæ.“