„Tækifærið er núna,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir í framboðsræðu sinni til formennsku í Sjálfstæðisflokksins á landsfundi fyrir stundu. Hún lagði áherslu á endurreisn flokksins með skýrari stefnu, meira hugrekki og aukinni sókn í stjórnarandstöðu.
Áslaug hóf mál sitt á því horfa yfir salinn og benda á að það væri þetta, sem vinstrimenn hræddust: Fullur salur af kraftmiklu fólki sem treysti stefnu Sjálfstæðisflokksins, en enn meira óttuðust vinstrimenn þó flokkinn ef hann þyrði að taka djörf skref inn í framtíðina.
„Það er okkar að hræða úr þeim líftóruna,“ sagði Áslaug við mikil fagnaðarlæti og sló tóninn fyrir ræðuna, sem var ákall um breytingar og að menn tækju framtíðinni opnum örmum.
„Frestum ekki framtíðinni! Förum í nýja sókn. Það er ekki eftir neinu að bíða! Tækifærið er núna.“
Áslaug Arna benti á að núverandi staða í stjórnmálum – vinstristjórn undir forystu Kristrúnar Frostadóttur – væri ekki vegna sigurs vinstriflokka, heldur vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hafi misst fylgi sitt í sögulegt lágmark.
„Kjósendur höfðu ekki næga trú á okkur,“ sagði hún og hvatti flokksmenn til að axla ábyrgð og grípa strax til aðgerða uppbyggingar, ekki niðurrifs.
Hún rifjaði upp sögulegan árangur flokksins, hvernig sjálfstæðismenn hefðu lagt grunninn að blómlegu atvinnulífi, velferðarkerfi og inngöngu Íslands í NATO undir forystu Bjarna Benediktssonar eldri, sem hafi tryggt frelsi, lýðræði og velmegun.
Einnig var árangur Bjarna Benediktssonar yngri lofaður, þar á meðal lækkun skatta, niðurgreiðsla skulda og afnám hafta, sem hafi skilað Íslandi betri stöðu en þekktist í helstu nágrannaríkjum.
Formannsframbjóðandinn dró ekki af sér í gagnrýni á ríkisstjórnina. Áslaug sakaði stjórn Kristrúnar um að hækka skatta, takmarka atvinnufrelsi, ýta undir inngöngu í Evrópusambandið og hindra lausnir í húsnæðismálum, heilbrigðisþjónustu og málefnum hælisleitenda.
„Þessi ríkisstjórn stendur reyndar nú þegar á öndinni – og ég efast um að nokkur þeirra kunni að beita Heimlich-aðferðinni!“ sagði Áslaug og uppskar hlátur, en þar vísaði hún til þess þegar hún á aðventunni bjargaði að líkindum lífi veitingahúsagests, sem lá við köfnun.
Hún nefndi að ríkisstjórnin kveinkaði sér mikið undan stjórnarandstöðunni, en sagði að það hefðu verið hveitibrauðsdagarnir. Nú væru þeir liðnir og hét Áslaug Arna því að við tæki hörð stjórnarandstöðu.
Áslaug lagði fram framtíðarsýn um Sjálfstæðisflokkinn, sameinaðan og stórhuga, líkt og álftir í oddaflugi, sem vinni saman að því að kljúfa mótvindinn.
Hún hvatti til þess að flokkurinn endurnýjaði starf sitt, opnaði Valhöll sem félagsheimili flokksmanna og treysti ungu fólki til áhrifa, eins og áður hefði tekist svo vel með ungum leiðtogum á borð við Davíð Oddsson og Bjarna Benediktsson.
„Við höfum val um að staðna – eða sýna hugrekki til að stíga næsta skref til framtíðar inn í næsta blómaskeið Sjálfstæðisflokksins.“
Að lokum nefndi hún formannskjör flokksins, þar sem hún og Guðrún Hafsteinsdóttir kepptu að sama marki, og hét samstöðu óháð niðurstöðunni.