„Það var hávaði í hafinu í nótt og morgun þegar kröftugir brimskaflarnir börðu sjóvarnargarðana á Álftanesinu. Drunurnar heyrðust þegar hvítflissandi hafið gekk á land og tók með sér stórgrýti og sjávargróður.“
Svona lýsir Eyþór Eðvarðsson stjórnendaþjálfari, í færslu á samfélagsmiðlum, ágangi sjávar á Álftanesið í morgun.
Eyþór segir í stuttu spjalli við mbl.is að ágangurinn sé bara að aukast. „Maður finnur að brimið er að verða meira og meira,“ segir hann.
Lýsir hann því að það sé kominn myndarlegur varnargarður við sjávarsíðuna en segir hann garðinn hafa látið aðeins á sjá síðasta vetur, sem hafi verið brimasamur.
„Það komu þarna stór brim og þá gerðist svipað og nú. Það kom mikið grjót upp og veggur varnargarðsins laskaðist aðeins. Þetta er svo að gerast aftur núna.
Það var töluvert mikið brim sem var þarna eldsnemma í morgun og það hefur rifið úr garðinum. Það er alveg stórt líklega 10 metra svæði sem er eiginlega bara farið,“ segir Eyþór.
Eyþór segir fjölda fólks ganga á hverjum morgni um göngu- og hestastíg við ströndina en nú hafi allt efni í honum meira og minna skolast í burtu.
„Þetta er bara drulla núna sem maður sekkur í.“
Eyþór lýsir því fyrir blaðamanni hvernig aldan hefur skollið á varnargarðinum og grjót að utan komist inn fyrir hann.
Segir hann ekki lengra síðan en í sumar að svæðið hafi verið grænt en á hverju ári komi grjót. Það hafi verið hreinsað upp í fyrra.
„Þetta var bara grasbali og þarna var beitt hestum. Nú er þetta bara eins og grýtt fjara og það hefur brotnað dálítið mikið úr þarna.“
Telur hann að næst þegar svona stórt flóð komi muni brimið ganga beint inn og mynda skarð í landið.
„Það verður næstum út að Kasthúsatjörn. Það mun verða meira rof.“