Hvað eiga tíkallasímar, hugtakið fæðufullveldi og borgarstjóraknús sameiginlegt? Jú, allt þetta þrennt mátti sjá bregða fyrir á samfélagsmiðlum íslensks stjórnmálafólks í vikunni. Skyggnst var inn í stjórnmálastarfið eins og það birtist á samfélagsmiðlum í nýjasta þætti Spursmála.
Eins og vitað er er aldrei lognmolla yfir pólitíkinni hér á landi. Í vikunni fóru fram borgarstjóraskipti í Ráðhúsinu, fyrsta kjördæmavikan í þinginu gekk í garð og fulltrúar þjóðarinnar ferðuðust vítt og breitt utan landsteinanna. Í myndskeiðinu sem fylgir hér að ofan má sjá brot af því helsta sem fram fór á samfélagsmiðlum stjórnmálaaflanna. Þeirri yfirferð er einnig gert skil hér að neðan.
Það var brjálað að gera hjá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, eða Togga Gunn eins og hún er kölluð í hlaðvarpsheiminum, en hún talaði máli Úkraínu í kjölfar þess að þrjú ár eru nú liðin frá innrás Rússa í landið.
Þá ávarpaði hún mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna í fyrsta sinn og lagði áherslu á mannréttindi og tilverurétt fólks.
Virkasti þingmaðurinn á samfélagsmiðlum: Snorri Másson, tók kjördæmavikuna með trompi og lærði til að mynda nýtt orð: Fæðufullveldi. Þegar hugtakinu er slegið upp hjá Árnastofnun skilar það þó engum niðurstöðum.
Eftir allt stormviðrið í borginni hreppti Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjórastólinn í liðinni viku og er hún fimmta konan til að gegna því embætti. Hér faðmar hún forvera sinn í drasl og nú fellur væntanlega allt í ljúfa löð í borginni.
Kristrún Frosta gekk á fund Selenskís í Kænugarði á dögunum og var þar viðstödd minningarathöfn. Ferðalaginu til Úkraínu deildi hún á félagsmiðlum þar sem 10 klukkustunda lestarferð var partur af prógramminu. Sem betur fer var hún í góðum félagsskap.
Jón Gnarr steig inn í tímavél og hvarf aftur til fortíðar þar sem hann hringdi í mömmu sína úr tíkallasíma í Búðardal.
Flokkur fólksins hélt langþráðan landsfund og kom öllu sínu í stand líkt og alvöru stjórnmálaflokkum sæmir.
Þær Dagbjört Hákonardóttir og Halla Hrund Logadóttir skelltu sér til kóngsins Köben og sóttu sinn fyrsta fund á vegum Norðurlandaráðs.
Einar Þorsteinsson fráfarandi borgarstjóri gerði upp borgarstjóratíð sína, sem stóð yfir í rúmlega ár, með hjartnæmri myndafærslu á Instagram. En þegar einar dyr lokast þá opnast aðrar og í sömu viku greindi hann frá því að hann og eiginkona hans, Milla Ósk Magnúsdóttir, eiga von á litlu kríli von bráðar.
Jón Gunnarsson varpaði svo sprengju inn í raðir Sjálfstæðismanna í aðdraganda landsfundar þar sem hann sakaði flokkssystur sína og ísdrottninguna Guðrúnu Hafsteinsdóttur um að eigna sér sín verk. „Stay classy“ Nonni.
Erlend stjórnmál verða farsakenndari með hverjum deginum en hér sést niðurskurðarkeisarinn Elon Musk taka við keðjusög frá Milei, hinum hárprúða forseta Argentínu, og sveifla henni á fjöldafundi í Maryland. Allt mjög eðlilegt.