„Kerfið burt“

Jens Garðar líkti Sjálfstæðisflokknum við storminn sem blásið gæti nýju …
Jens Garðar líkti Sjálfstæðisflokknum við storminn sem blásið gæti nýju lífi í íslenskt samfélag. mbl.is/Hákon

Jens Garðar Helgason sagði í framboðsræðu sinni til varaformanns Sjálfstæðisflokksins að mikilvægt væri að nýta sóknarfærin með því að trúa á fólk, hvetja það og treysta því til góðra verka, í stað þess að vantreysta og skattleggja.

Hann vitnaði í Storm, ljóð Hannesar Hafstein og líkti Sjálfstæðisflokknum við storminn sem blásið gæti nýju lífi í íslenskt samfélag. Hann lagði áherslu á að flokkurinn þurfi að finna aftur innri kraft sinn og leiða þjóðina inn í nýja tíma með skýrri sjálfstæðisstefnu.

Aftur sá stormur sem þjóðin þyrfti

Jens rifjaði upp sögu flokksins sem afl breytinga, frá framsýni Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar eldri, sem veittu ömmu hans von um betra Ísland, til Davíðs Oddssonar og Friðriks Sophussonar, sem ýttu undir frelsi og einkaframtak á síðustu öld.

Hann sagði þessa arfleifð hafa skilað hagvexti og velsæld, en spurði hvort flokkurinn hafi misst sjónar á frelsismálum með vaxandi kerfisþunga.

Hann gerði „Kerfið burt!“ að slagorði sínu, kallaði reglugerðarfarganið „alltumlykjandi og íþyngjandi“ og sagði það drepa athafnagleði og verðmætasköpun. Hann hét því að flokkurinn yrði aftur sá stormur sem þjóðin þyrfti, og nefndi til dæmis hraðari ákvarðanir í innviðum eins og veglagningu á Vestfjörðum og Sundabraut, og virkjun fallorku til að koma í veg fyrir raforkuskort.

„Við setjum þjóðina í fyrsta sæti, ekki kerfið,“ sagði hann.

Jens Garðar við flutning ræðu sinnar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í …
Jens Garðar við flutning ræðu sinnar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag. mbl.is/Hákon

Feigðarplan ríkisstjórnar

Jens gagnrýndi núverandi ríkisstjórn harðlega og kallaði stefnu hennar „feigðarplan“, sem miði að dýpri skattheimtu og inngöngu í Evrópusambandið, sem glímdi við efnahagslega stöðnun. Hann lofaði jafnharðri stjórnarandstöðu og Bjarni Benediktsson og Ólöf Nordal veittu á sínum tíma.

Hann lagði áherslu á að Sjálfstæðisflokkurinn yrði að sýna trúverðugleika með því að efna loforð sín, svo heimili og fyrirtæki finni mun þegar flokkurinn kemst aftur til valda.

„Við treystum hinum vinnandi manni frekar en að seilast dýpra í vasa hans,“ sagði hann og bætti við að með því að hvetja fólk til dáða skapist verðmæti sem styðji við velferðarkerfið.

Eiginmaður, faðir og afi lofar sigri

Jens kjarnaði framtíðarsýn sína með loforði um sigra í sveitarstjórnarkosningum næsta vor, þar sem flokkurinn myndi finna „storminn innra með sér“ og fá byr í seglin.

Hann kvaðst sækja styrk í reynslu sína sem eiginmaður, faðir, afi og í þriggja áratuga starf fyrir flokkinn í sveitarstjórn, atvinnulífi og Norðausturkjördæmi.

„Ég mun einhenda mér í baráttuna, djarfur og glaður, og saman náum við enn meiri árangri fyrir Ísland,“ sagði hann að lokum og bað um stuðning fundargesta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert