Grímur Pálsson, sá er var sýslumaður á Möðruvöllum í Hörgárdal snemma á 16. öld, og Helga Narfadóttir kona hans eru fólk sem allir Íslendingar eiga að geta rakið ættir sínar til. Þetta leiða í ljós rannsóknir sem Friðrik Skúlason, tölvunar- og ættfræðingur, hefur gert með samkeyrslu margvíslegra gagna. Friðrik er einn þeirra sem standa að Íslendingabók.is; ættfræðigrunninum þar sem landsmenn geta séð tengsl sín við mann og annan.
Því hefur oft verið haldið fram að allir sem eiga djúpar rætur á Íslandi geti rakið sig til Jóns Arasonar Hólabiskups (1484-1550). Sá gæti í raun með sóma borið réttnefnið: faðir þjóðar. Sem dæmi má nefna að sá sem þetta skrifar, fæddur árið 1971, er í 14. lið afkomandi biskupsins, sem eins og kunnugir þekkja var með sonum sínum hálshöggvinn í Skálholti í þeirri skálmöld sem fylgdi siðaskiptunum á Íslandi. Nú eru Íslendingar komnir á þann stað að fyrirvara má gera við þá staðhæfingu að öll séum við afkomendur Jóns biskups.
Af núlifandi Íslendingum sem geta rakið ætt sína langt aftur í aldir er 51 einstaklingur sem getur ekki fundið tengingu við Jón Arason. Þetta segir Friðrik Skúlason sem telur þetta ráðast af því að gloppur séu í skáningum, svo sem kirkjubókum og registrum. Slíkar heimildir eru grundvöllur þeirrar ítarlegu ættarskrár sem til er á Íslandi.
„Frá fyrri tíð eru göt í skráningum af því þjónustubækur presta og slík gögn hafa glatast. Eigi að síður er ekki ósennilegt að þessi skyldleiki við biskupinn sé til staðar, en hér verður samt að hafa fyrirvara. Eftir einhverja áratugi geta þessi tengsl verið komin aftur enda eru þá komnar nýjar kynslóðir. Slíkt verður þá til með því að fólk hvort úr sinni áttinni parast saman, eignast börn sem þá hugsanlega geta rakið sig til Jóns biskups,“ segir Friðrik.
Grímur sýslumaður er í grárri forneskju; fæddur að talið er árið 1460. Helga kona hans, fædd fimm árum síðar, átti bú sitt á Möðruvöllum; höfuðbóli og sögustað margra alda. Börn þeirra voru sex talsins; fædd fyrir og um árið 1500. Og af þessu fólki öllu er mikill ættbogi kominn, það er Íslendingar allir, sbr. athuganir Friðriks.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út fimmtudaginn 27. febrúar.