Guðrún Hafsteinsdóttir, þingmaður og fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, hóf framboðsræðu sína til formanns á landsfundi flokksins í dag með því að biðja fundargesti að rísa úr sætum sínum og klappa hraustlega fyrir Bjarna Benediktssyni fráfarandi formanni og fyrrverandi ráðherra flokksins um árabil.
Hún sagði þá að í Sjálfstæðisflokknum væri rými fyrir margs konar sjónarmið sem falli svo í sameiginlegan farveg grunngilda flokksins.
Það var einmitt rauði þráðurinn í ræðu Guðrúnar – samvinna og samtakamáttur. Sagði hún landsfund verða fyrstu skrefin í endurreisn forystu Sjálfstæðisflokksins.
Guðrún sló á létta strengi þegar hún bað fyrir góðum kveðjum frá Jóni Bjarnasyni, fyrrverandi ráðherra Vinstri grænna, og sagði stutta sögu af því að hún hafi hringt í Jón Bjarnason nýlega til að ræða lífið og pólitíkina en komist að því þegar hún væri langt komin inn í símtalið að hún hafi hringt í téðan vinstri-mann en ekki vin sinn Jón Bjarnason bónda.
Guðrún hét landsfundarmönnum því að mæta á hverjum degi til vinnu og róa öllum árum til þess að stækka flokkinn.
Sagði hún að flokksmenn muni sigrast á mótlætinu og hefja næsta vaxtarskeið Sjálfstæðisflokksins.
Í ræðu sinni kom Guðrún inn á það sem hún hefur rætt opinskátt í kosningabaráttunni, sem er andlát föður hennar og þegar hún tók óvænt við framkvæmdastjórastöðu í fjölskyldufyrirtækinu.
Inntakið var þó þáttur móður hennar sem Guðrún sagði að hafi sagt við þau systkinin að þau skyldu reka fyrirtækið áfram í minningu pabba þeirra. Þá hafi hún sagt að um leið og systkinin færu að rífast yrði fyrirtækið selt.
Lýsti Guðrún því hvernig móðir sín ræktaði allt sitt samfélag, meðal annars með því að mæta í eigin persónu á heimili allra starfsmanna fyrirtækisins sem eignast hefðu börn, með prjónaðar hosur.
Sagðist Guðrún myndu rækta flokkinn eins og mamma sín hafi gert en að hún geti ekki lofað heimaprjónuðum ullarsokkum á öll ófædd börn og barnabörn landsfundarmannaþó hún glöð vildi.
Lagði Guðrún til þrjár breytingar.
Í fyrsta lagi sagðist hún vilja færa valdið til flokksmanna. Það þurfi að efla flokksfélögin og færa verkefni og fjármagn út í kjördæmin þar sem grasrót flokksins vísi veginn í sinni heimabyggð.
Í öðru lagi sagðist Guðrún vilja stuðla að því að forysta flokksins verði kosin með opnari hætti. Hún sagðist vilja gefa öllum flokksmönnum sem sannarlega starfa í og styðja flokkinn tækifæri á að velja sína forystu. Sagðist hún trúa því að sú breyting muni styrkja flokkinn og sameina.
Í þriðja lagi vill hún gera Valhöll að gróðurhúsi nýrra og djarfra hugmynda. Sagði hún að það yrði að senda skýr skilaboð sem yrðu að koma frá forystunni um að lyfta upp djörfum hugmyndum og setja fram nýjar. Hugmyndum sem tryggja að Ísland verði áfram besti staður í heimi til að búa og starfa í.
Sagði Guðrún að sama hvar fólk fæðist og sama hvaðan það komi eigi hver og einn einasti einstaklingur að hafa tækifæri til að skapa sér framtíð.
Hún sagði söguna ekki skrifaða af þeim sem gefast upp heldur þeim sem þori og sæki fram. Sagðist hún vilja endurreisa Sjálfstæðisflokkinn og leiða Ísland inn í nýja tíma stétt með stétt.
Lýsti hún bæði störfum sínum sem formaður Samtaka iðnaðarins og því þegar hún á vettvangi Samtaka atvinnulífsins mætti nýrri verkalýðsforystu í landinu. Þar sagðist hún hafa upplifað hörku og orðbragð sem hún hafi ekki séð áður.
Þar hafi ekki verið fólk sem liti á sig sem launþega og viðsemjendur sína sem atvinnurekendur og að hægt væri að semja í bróðerni heldur liti það svo á að auðvaldið og öreigarnir myndu berjast á banaspjótum.
Guðrún sagði sína sýn þá að Íslendingar væru allir í sama liðinu.
Þá sagði hún ekkert skjól fyrir Ísland að finna í Evrópusambandinu. Sagði mikilvægt að við styrkjum böndin við okkar vinaþjóðir og að aldrei hafi verið mikilvægara að við stæðum vörð um hagsmuni okkar.
Guðrún sagði Sjálfstæðisflokkinn standa á tímamótum en það væri á tímamótum sem þessum sem reyni raunverulega á styrk sérhvers manns.
„Það má vel vera að við höfum tapað orustum og það má vel vera að við höfum verið undir í kosningum en aldrei munum við gefast upp.
Því ef ekki við þá hver? Og ef ekki núna þá hvenær? Ef ekki Sjálfstæðiflokkurinn, hver ætlar þá að standa með frelsi einstaklingsins, verðmætasköpuninni og framtíð Íslands?“ spurði hún.
Hún sagði þjóðina bíða eftir sterkum, stoltum og samstilltum Sjálfstæðisflokki sem berjist fyrir frelsinu því vitað sé að frelsið krefjist varna, framtakið krefjist kjarks og Ísland krefjist leiðtoga sem bæði getur og þorir.
„Ég lifi frelsishugsjónina. Ég hef kjarkinn. Ég skil ábyrgðina og ég veit hvað þarf til.
Þess vegna er ég rétta manneskjan til að leiða flokkinn og þess vegna býð ég mig fram til formanns Sjálfstæðiflokksins.“
Í lok ræðunnar ræddi Guðrún um hugrekki, þrautseigju og seiglu sem litað hafi sögur Sjálfstæðismanna. Ekki bara einstakra manna heldur Sjálfstæðisflokksins alls.
Lokaorð hennar voru þá þessi, áður en hún fékk standandi lófaklapp:
„Og nú, kæru vinir, nú skrifum við næsta kafla. Göngum sameinuð og sterk héðan út, stöndum af okkur storminn og stækkum Sjálfstæðisflokkinn.“