Í kvöld frá kl. 20.08 voru öll auglýsingaskilti á höfuðborgarsvæðinu tileinkuð minningu Jökuls Frosta Sæberg í átta mínútur, því að hann hefði orðið átta ára í ár.
Jökull Frosti var aðeins fjögurra ára gamall þegar hann lést af slysförum fyrir tæplega fjórum árum.
Daníel Sæberg Hrólfsson, faðir Jökuls Frosta, var staðráðinn í að nýta þann sára harm sem fylgdi sonarmissinum til að láta gott af sér leiða og halda minningu sonar síns á lofti um ókomna tíð.
„Þetta er í annað skipti sem við höldum upp á Græna daginn í minningu Jökuls Frosta sonar míns,“ sagði Daníel Sæberg Hrólfsson í Morgunblaðinu í dag.
Hugmyndin með deginum er að safna fjármunum fyrir börn og unglinga í sorg, en allur ágóði rennur til Arnarins, minningar- og styrktarsjóðs, sem stendur m.a. fyrir samverustundum fyrir ungmenni, sem hafa misst ástvin, og helgardvöl í sumarbúðum.