„Þessi yfirlýsing er efnislega fullkomlega röng. Hún er ekkert annað en tilraun opinberrar stofnunar til yfirhylmingar yfir gróft og alvarlegt lögbrot og brot á ríkri skyldu sinni gagnvart umbjóðanda mínum, sem er flugmaður og á allt sitt undir þessari stofnun.
Staðreyndin er sú að svo virðist sem starfsmenn stofnunarinnar þoli ekki að umbjóðandi minn hafi farið með málið lengra. Samgöngustofa sparkar í staðinn í liggjandi mann, sem í góðri trú tilkynnti stofnuninni, eins og honum bar, um breitt heilsufarsástand.“
Þetta segir Páll Ágúst Ólafsson lögmaður, en hann gætir hagsmuna flugmanns en trúnaðarlæknir Samgöngustofu fletti upp í sjúkraskrá hans, án heimildar og með ólögmætum hætti, að sögn Páls Ágústs.
Flugmaðurinn var sviptur heilbrigðisvottorði og fær það ekki endurnýjað sem leiðir af sér að hann getur ekki starfað sem flugmaður.
Samgöngustofa sendi frá sér yfirlýsingu vegna fréttaflutnings af málinu.
„Það eina sem er rétt í yfirlýsingunni er að það hvíla ríkar skyldur á Samgöngustofu í tengslum við eftirlit með flugmálum og einstaklingum sem eru handhafar réttinda,“ segir Páll Ágúst.
Hann segir það staðfest í annars vegar tveimur úrskurðum Persónuverndar og hins vegar af embætti landlæknis að Samgöngustofa hafi brotið með mjög alvarlegum og afdrifaríkum hætti gegn þessum ríku skyldum sínum gagnvart umbjóðanda sínum, sem sé einmitt einstaklingur sem hafi verið handhafi réttinda.
„Þetta er lykilatriði,“ segir Páll Ágúst. „Það sem Samgöngustofa viðurkennir í yfirlýsingu sinni er að alvarleg lögbrot hafi viðgengist um árabil innan stofnunarinnar. Þessi yfirlýsing staðfestir að Samgöngustofa hafi brotið lög um loftferðir og lög um sjúkraskrár um árabil.“
Segir Páll Ágúst stofnunina telja sig vera að bera í bætifláka fyrir misgjörðir sínar en í rauninni, með vísan til 82. gr. laga um loftferðir, hafi stofnunin aldrei átt að hafa heimild til að fara í sjúkraskrá.
„Í sjúkraskrá fólks eru margvíslegar upplýsingar sem koma því nákvæmlega ekkert við hvort einstaklingur er hæfur til að fá heilbrigðisvottorð eða ekki,“ segir hann.
Umbjóðandi Páls Ágústs kvartaði bæði til Persónuverndar og landlæknis en landlæknir hefur eftirlit með störfum heilbrigðisstarfsmanna og fellur trúnaðarlæknir Samgöngustofu þar undir. Embætti landlæknis hefur einnig eftirlit með því að ákvæði laga um sjúkraskrár séu virt. Í erindi umbjóðanda hans til landlæknis var það rakið hvernig farið var með upplýsingar úr sjúkraskrá hans.
Niðurstaða landlæknis er sú að embættið tók ákvörðun um að fylgja málinu eftir á grundvelli lögbundinnar eftirlitsskyldu og stofnaði landlæknir sérstakt eftirlitsmál á hendur trúnaðarlækninum vegna uppflettinga hans í sjúkraskrá flugmannsins.
„Samkvæmt svarbréfi landlæknis til umbjóðanda míns var það niðurstaða embættisins að trúnaðarlæknirinn hafi flett upp í sjúkraskrá hans án heimildar, sem hafi falið í sér brot á ákvæðum laga um sjúkraskrár. Þá kemur þar einnig fram að landlæknir hafi brugðist við gagnvart lækninum með viðeigandi hætti.
Þetta staðfestir að það sem Samgöngustofa heldur fram í yfirlýsingu sinni að sé háttsemi sem hafi viðgengist um árabil og sé eflaust mjög þægilegt og heppilegt verklag fyrir stofnunina sé í raun og veru grafalvarlegt brot á lögum um sjúkraskrár. Það er kristaltær niðurstaða landlæknis,“ segir Páll Ágúst ákveðinn.
Rangfærslurnar eru fjölmargar í yfirlýsingu Samgöngustofu að sögn Páls Ágústs.
„Heilsugæslunni láðist hins vegar að afla lögbundins samþykkis ráðherra fyrir samningnum. Í kjölfar úrskurðar Persónuverndar frá 23. september 2024 var samningnum rift,“ segir í yfirlýsingu Samgöngustofu.
„Þetta er rangt,“ segir Páll Ágúst. Ekki þurfi eingöngu samþykki ráðherra heldur einnig Persónuverndar og það hafi ekki legið fyrir. Samgöngustofa sleppi því að taka fram í yfirlýsingu sinni að ekki aðeins hafi heilbrigðisráðuneytið þurft að samþykkja samninginn heldur einnig Persónuvernd.
Páll Ágúst segir þá að Persónuvernd hafi komist að þeirri niðurstöðu að aðgangur trúnaðarlæknis Samgöngustofu hafi verið ólögmætur, m.a. á þeim forsendum að um allt of víðtækar heimildir væri að ræða, auk þess sem, jafnvel þó viðkomandi flugmaður myndi gefa trúnaðarlækni heimild til uppflettingar, þá væri sú heimild líka ólögmæt, þar sem í því fælist í raun þvingað samþykki, þar sem Samgöngustofa sé aðili í valdastöðu gagnvart flugmanninum.
„Það er látið í veðri vaka í yfirlýsingunni að það sé einvörðungu einfalt formsatriði að afla þessara samþykkja, sem er alls ekki sjálfgefið að hafi fengist sbr. úrskurð Persónuverndar.
Það er ekki formsatriði að afla samþykkis ráðherra og Persónuverndar. Það er lykilatriði,“ segir Páll Ágúst. „Til þess að tryggja að þær upplýsingar sem koma fram í sjúkraskrá og aðgangur að þeim sé ekki veittur hverjum sem er.“
Segir hann raunar að úrskurðir Persónuverndar vegna málsins frá bæði 2024 og 2025 bendi til þess að samningurinn, eins og hann er settur fram, hefði aldrei verið samþykktur af þessum aðilum gagnvart Samgöngustofu.
„Samkvæmt samningi við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hafði trúnaðarlæknir Samgöngustofu aðgang að sjúkraskrá um árabil. Nýttist hann þegar leggja þurfti sérstakt mat á heilbrigði umsækjenda um leyfi til flugstarfa,“ segir í yfirlýsingu Samgöngustofu.
Páll Ágúst vekur sérstaka athygli á þessu orðalagi.
„82. gr. laga um loftferðir segir að læknum, sem hafa starfstöð hér á landi, sé skylt að framsenda þær heilbrigðisskrár og heilbrigðisskýrslur og aðrar viðeigandi upplýsingar til Samgöngustofu, sé þess óskað í þágu heilbrigðisvottunar einstaklings eða eftirlits Samgöngustofu.
Hvað segir þetta? Jú, þetta segir okkur að Samgöngustofa getur kallað eftir tilteknum upplýsingum, sem eru í beinu samhengi við mat stofnunarinnar á heilbrigðisvottun viðkomandi aðila.
Það felst beint í orðanna hljóðan að Samgöngustofa eigi ekki að hafa heimild til þess að geta flett upp því sem stofnuninni hentar, hafa aðgang að öllum sjúkraskrám landsmanna eða öllum heilsufarsupplýsingum þeirra sem stofnunin þarf að gefa út heilbrigðisvottorð fyrir.
Þetta er lykilatriði! Í yfirlýsingu stofnunarinnar felst bein viðurkenning á lögbroti sem staðið hefur yfir um árabil. Ekki bara gagnvart umbjóðanda mínum heldur öllum þeim sem þurfa á heilbrigðisvottorði að halda frá Samgöngustofu,“ segir Páll Ágúst.
Víkur hann þá máli sínu að orðalagi í samningnum milli heilsugæslunnar og Samgöngustofu, sem hann segir að mörgu leyti athugavert. Þar sé til dæmis talað um að Samgöngustofa geti flett upp í sjúkraskrá skjólstæðinga sinna.
„Í fyrsta lagi er enginn heilbrigðisstarfsmaður í vinnu hjá Samgöngustofu. Í öðru lagi er Samgöngustofa ekki heilbrigðisstofnun og í þriðja lagi ekki með skjólstæðinga til læknisfræðilegrar meðferðar.
Það fer enginn í læknismeðferð á Samgöngustofu,“ segir Páll Ágúst.
Hann segir það með ólíkindum að Samgöngustofa segi í raun í yfirlýsingu sinni að verklag hjá opinberri stofnun sé í raun krónískt lögbrot.
„Það er ekkert samhengi milli flugöryggis og þess að Samgöngustofa hafi aðgang að sjúkraskrá,“ hnykkir lögmaðurinn á.
Lýsir hann því að Samgöngustofa segi aðganginn að sjúkraskrá hafa nýst þegar hafi þurft að leggja sérstakt mat á heilbrigði umsækjenda.
„Staðreyndin er sú að það er hvergi heimild í lögum handa trúnaðarlækni að leggja eitthvað sérstakt mat á heilbrigði umsækjenda um leyfi til flugstarfa með beinum aðgangi að sjúkraskrá.“
Ítrekar Páll Ágúst að 82. gr. laga um loftferðir kveði skýrt á um hvernig trúnaðarlæknir skuli fyrir hönd stofnunarinnar afla þeirra upplýsinga sem hann telur sig þurfa á að halda.
Hann þurfi að hafa fyrir því að kalla sérstaklega eftir þeim frá þar til bærum aðilum sem eftir atvikum hafi flugmann til læknismeðferðar. Annars eigi trúnaðarlæknirinn einfaldlega að fá flugmanninn til sín og láta hann undirgangast læknisskoðun og fá þannig úr því skorið hvort hann uppfylli skilyrði sem flugmenn þurfi að uppfylla.
„Hlutverk læknisins er svo að upplýsa Samgöngustofu um það hvort tiltekinn flugmaður standist heilbrigðisskoðun eða ekki án nánari útskýringa. Það er alls engin heimild til að menn stytti sér leið í gegnum sjúkraskrá.“
Umbjóðandi Páls Ágústus var sviptur leyfi sínu að sögn lögmannsins á grundvelli upplýsinga sem voru handahófskenndar upplýsingar úr sjúkraskrá hans og rangtúlkaðar með öllu.
„Á þeim grunni er hann svo sviptur heilbrigðisvottorði sínu með þeim rökum að hann sé að kljást við vandamál sem eiga sér enga stoð, hvorki í sjúkraskrá hans né raunveruleikanum,“ segir Páll Ágúst.
Hann fullyrðir að skáldaður hafi verið upp algjörlega ótengdur heilsufarsbrestur sem enginn fótur sé fyrir og að stofnunin fullyrði að umbjóðandi hans hafi verið að glíma við um árabil.
„Fullyrðing stofnunarinnar stenst ekki skoðun í ljósi þeirrar staðreyndar að heilbrigðisvottorð umbjóðanda míns hefur alltaf verið endurnýjað og meira að segja hefur það verið endurnýjað í gegnum tölvupóst.“
Páll Ágúst segist aðspurður sýna því skilning að gerð séu mistök en að í ljósi niðurstöðu, bæði landlæknis og Persónuverndar, blasi við að Samgöngustofu sé skylt að leiðrétta mistök sín með því að afturkalla sviptingu heilbrigðisvottorðs og endurnýja það til handa umbjóðanda hans, enda engar lögmætar forsendur til annars.
„Það er mannlegt að gera mistök en við verðum að krefjast þess að þegar um stofnanir sem Samgöngustofu er að ræða, sem fara með opinberar valdheimildir, að þær leiðrétti mistökin.
Nú þegar Samgöngustofa er fullupplýst um lögbrot sín og þau staðfest af embætti landlæknis og Persónuvernd, þá ber Samgöngustofu að hætta að reyna að réttlæta misgjörðir sínar.
Í mínum huga á Samgöngustofa ekki annarra kosta völ en að bera klæði á vopnin og leiðrétta mistökin án tafar,“ segir Páll Ágúst að lokum.