Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, segir stórtjón hafa orðið þegar sjór flæddi yfir varnargarða í morgun og inn í hús við Suðurströnd Seltjarnarness og víðar. Hann varar við því að búast megi við svipuðum aðstæðum í kvöld og hvetur fólk til að gera ráðstafanir.
Slökkvilið var með mannskap frá þremur slökkviliðsstöðum í allan morgun og fram yfir hádegi við að dæla sjó upp úr kjöllurum víða á svæðinu við strandlengjuna frá Skerjafirði og út að Fiskislóð.
Sjór flæddi yfir varnargarða vegna hárrar sjávarstöðu og hvassviðris en varað hafði verið við stórstreymi. Þá bárust grjóthnullungar inn á lóðir og göngustíga.
Dæla þurfti sjó úr kjöllurum í að minnsta kosti sex húsum, að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. Tjónið er töluvert, sérstaklega í kjöllurum og á neðri hæðum húsanna.
„Við erum búin að vera að frá því fyrir klukkan níu í morgun, síðasti bíllinn var bara að koma inn núna,“ segir Bjarni Ingimarsson, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
„Það flæddi sjór yfir varnargarðana í morgun en það var háflóð klukkan átta í morgun. Það flæddi sjór alveg upp að húsunum og það var alveg upp í 60 sentímetrar af vatni fyrir utan húsin og svo lak inn.“
Bæjarstjórinn á Seltjarnarnesi birti færslu á íbúasíðu Seltjarnarness fyrr í dag þar sem hann sagði mikið tjón hafa orðið hjá íbúum og hvatti fólk til að tilkynna tjón strax til tryggingafélaga.
„Það lá tjörn í kringum þetta hús og upp að gluggunum þarna. Kjallarinn á þessu húsi var hálffullur af vatni og á fleiri húsum í kring. Ég var þarna í morgun með slökkviliðinu á milli átta og hálfníu,“ segir Þór í samtali við mbl.is. Parket og húsgögn hafi skemmst.
„Svo eru allir göngustígarnir hjá okkur í kringum Nesið illa laskaðir eða ónýtir,“ segir hann jafnframt.
„Það er búist við öðru eins stórstreymisflóði og suðvestanátt eins og var í nótt aftur.“