Menn haldi frið við Eflingu á vinnumarkaði. Að öðrum kosti mun það hafa alvarlegar afleiðingar. Þetta segir Sólveig Anna Jónsdóttir, umbúðalaust, í nýjasta þætti Spursmála. Sjón er sögu ríkari.
Í viðtalinu er einnig rætt við Sigríði Margréti Oddsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins.
Þar er rætt um stöðuna á vinnumarkaði í kjölfar þess að sveitarfélög og ríki sömdu við kennarastéttirnar til næstu fjögurra ára.
Sólveig Anna hyggst sækja sömu kjarabætur fyrir sína umbjóðendur. Hefur hún meðal annars sagt að sú tilviljun að nú á sama tíma sé búið að segja upp samningum fyrir félagsmenn Eflingar sem sinni umönnun á hjúkrunarheimilum, geri það að verkum að kjarabætur kennara verði speglaðar inn í þá samninga. Stéttin sem Sólveig Anna talar fyrir þar er ekki smá í sniðum, um 2.300 manns.
Sólveig gefur því afar lítið fyrir þá kröfu Kristrúnar Frostadóttur, forsætisráðherra, þess efnis að kennarar verði teknir út fyrir sviga í þeirri vinnu sem felst í að halda friði á vinnumarkaði. Bendir Sólveig Anna á að virðismatið sem forsætisráðherrann hengir sig í sem sérmál kennarastéttarinnar, geti vel átt við þegar kemur að því að vega og meta störf þeirra kvennastétta sem hún talar fyrir.
Þá vill Sólveig Anna meina að viðsemjendur kennara hafi flaskað á því að hugsa meira en einn eða tvo leiki fram í tímann. Vísar hún þar bæði til sveitarfélaganna, einkum nýs meirihluta í Reykjavík og nýrrar ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur.
Orðaskiptin um þetta má sjá í spilaranum hér að ofan.
Og viðtalið við þær stöllur er í heild sinni aðgengilegt í spilaranum hér að neðan: