Flugi Play til Marrakech í Marokkó í morgun var aflýst vegna veikinda áhafnar og veikinda áhafnar á bakvakt.
„Það var því ekki hægt að manna vélina. Þetta gerist nánast aldrei en gerðist núna og er ótrúlega óheppilegt,“ segir Nadine Guðrún Yaghi, samskiptastjóri Play, í samtali við mbl.is.
Þá segir Nadine að veðrið sé ekki að spila með flugfélaginu en búist er við óveðri í dag og á morgun og á félagið í erfiðleikum með að láta farþega vita nákvæmlega hvað mun gerast.
„Við erum hins vegar með allt okkar fólk að vinna í málinu og munum upplýsa farþega um leið og við vitum hvort hægt verði að senda auka vél eftir þeim á morgun.“