Bregðast við og endurbyggja herbergi með hraði

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, bindur vonir við að …
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, bindur vonir við að hægt verði að hætta neyðarvista börn í Flatahrauni eftir mánuð. Samsett mynd

Mennta- og barnamálaráðherra gerir ráð fyrir að tvö herbergi sem nýta á undir neyðarvistun á meðferðarheimilinu Stuðlum verði tilbúin eftir mánuð. Þá verður hægt að hætta að nota rými á lögreglustöðinni í Flatahrauni fyrir neyðarvistun barna, en síðustu mánuði hafa börn niður í 13 ára verið vistuð þar við óboðlegar aðstæður.

Álma fyrir neyðarvistun á Stuðlum gjöreyðilagðist í bruna í október síðastliðnum, þar sem 17 ára drengur lést. Í kjölfarið var rými á meðferðardeildinni stúkað af og nýtt undir neyðarvistun. 

Þá hefur rými á lögreglustöðinni í Flatahrauni einnig verið nýtt undir neyðarvistun, líkt og mbl.is greindi fyrst frá í október og hefur fjallað áfram um síðustu vikur. Umboðsmaður barna hefur sagt aðstæður þar óboðlegar börnum og bæði ráðherra og forstjóri Barna- og fjölskyldustofu hafa tekið undir það. Svörin hafa þó verið á þann veg að önnur aðstaða sé ekki í boði. 

Segir rýmin standast öryggiskröfur

Ólöf Ásta Farestveit, forstjóri Barna- og fjölskyldustofu, sagði í samtali við mbl.is un miðjan febrúar að gert væri ráð fyrir að endurbygging álmu fyrir neyðarvistun á Stuðlum tæki rúmt ár. Nú hefur hins vegar tekist að flýta framkvæmdum að hluta.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, segir að ákveðið hafi verið að endurbyggja tvö herbergi með hraði til að bregðast við vandanum sem upp er kominn. 

„Það var talað að það ætti að taka um fjórar vikur, þannig ég vona að það verði ekki meira en mánuður þangað til það verður tekið í notkun,“ segir Ásthildur í samtali við mbl.is.

„Þarna eru sett upp tvö rými með hraði, sem svara öryggiskröfum, þannig það verður hægt að hætta að nota Flatahraun,“ segir hún jafnframt.

Ætlað þeim sem beita miklu ofbeldi

Líkt og áður sagði hafa börn niður í 13 ára verið neyðarvistuð í gluggalausum rýmum á lögreglustöðinni í Flatahrauni frá því í október, í allt að tvo sólarhringa í senn.

Ólöf sagði í samtali við mbl.is í febrúar að Flatahraun væri aðeins notað fyrir erfiðustu tilfellin, þegar börn beittu miklu ofbeldi eða sýndu aggressífa hegðun vegna fíkniefnaneyslu. Þau væru þar að hámarki í tvo sólarhringa áður en þau færu í neyðarvistun á Stuðlum. 

Sagði hún að af 34 neyðarvistunum frá því í október hefðu 30 varað í sólarhring eða skemur.

Flest börn færu hins vegar beint inn á Stuðla þar sem hafa verið fjögur rými ætluð til neyðarvistunar frá því í október.

„Það eru ein­staka börn sem það rými held­ur ekki. Þar eru hefðbundn­ar tréh­urðar, rúm og skrif­borð og annað sem þau geta í raun­inni stofnað sér í hættu með, eða öðrum skjól­stæðing­um, því þetta rými er þröngt,“ útskýrði Ólöf.

Nú stendur þetta til bóta ef þau áform ganga eftir, sem ráðherra greinir frá, að endurbyggja tvö herbergi sem standast öryggiskröfur, sem taka á í notkun eftir mánuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert