Bullandi hálka og versnandi veður

Varðstjóri slökkviliðsins hvetur vegfarendur til þess að fara varlega í …
Varðstjóri slökkviliðsins hvetur vegfarendur til þess að fara varlega í hálkunni. mbl.is/Ólafur Árdal

„Ég get alveg fullyrt það að það er bullandi hálka,“ segir Stefán Már Kristinsson, varðstjóri slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Hvetur hann fólk til þess að fara varlega vegna hálkunnar, hvort sem er í umferðinni eða annars staðar.

Slökkviliðið hefur þó lítið þurft að sinna útköllum vegna hálkuslysa í dag.

Tvær bílveltur urðu með skömmu millibili á sjötta tímanum í dag, önnur í Kollafirði en hin í Breiðholti. Ekki urðu alvarleg slys á fólki.

Versnandi veður

Gular veðurviðaranir er í gildi í Breiðafirði, Faxaflóa, höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og Suðausturlandi.

Spáð er versnandi veðri í kvöld og í nótt og verða appelsínugular viðvaranir í gildi frá því seint í kvöld og fram á nótt á Ströndum og Norðurlandi vestra, Breiðafirði, Faxaflóa og Suðurlandi.

Viðvaranir á landinu klukkan 3 í nótt.
Viðvaranir á landinu klukkan 3 í nótt. Kort/Veðurstofa Íslands

Óvissustig, hálka og lokanir

Hálka er á flestum leiðum á höfuðborgarsvæðinu og búist er við versnandi veðri sem gæti haft áhrif á umferð, að því er segir á vefsíðu Vegagerðarinnar, umferdin.is.

Óvissustig var á Reykjanesbrautinni, Grindavíkurvegi og Kjalarnesi frá hádegi og til klukkan 18 í kvöld.

Búist er við því að veðrið muni hafa áhrif á færð á Hellisheiði, Þrengslum og Mosfellsheiði en þessar leiðir eru á óvissustigi til klukkan 5 í fyrramálið. Gæti komið til lokana með stuttum fyrirvara.

Holtavörðuheiði er enn lokuð en óvissustig er á Vatnaleið, Fróðárheiði, Svínadal, Bröttubrekku og við Hafnarfjall. Sömuleiðis gæti komið til lokana á þessum leiðum með stuttum fyrirvara.

Mjög erfið akstursskilyrði eru á Öxnadalsheiði.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert