Nýboðað samstarf Danmerkur og Noregs í varnarmálum var rætt á SAMAK-leiðtogafundinum í Ósló í vikunni sem leið, samstarfsvettvangi jafnaðarflokka og alþýðusambanda á Norðurlöndum.
Kristrún Mjöll Frostadóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, sat fundinn, svo sem fram kom í viðtali við hana hér á vefnum á þriðjudag, ávarpaði samherja sína á vettvangi SAMAK og greindi frá gangi mála hjá íslenskum stjórnvöldum.
„Hjá okkur í ríkisstjórninni ríkir einhugur um að leggja þurfi réttlátt auðlindagjald á fiskveiðar, hafnytjar og orku auk þess sem við teljum rétt að ferðamenn greiði fyrir aðgang að náttúru okkar,“ sagði Kristrún.
Eins og mbl.is greindi frá á þriðjudag sat hún fundinn á heimleið frá Úkraínu þar sem vestrænir leiðtogar ræddu skuldbindingar og lögðu fram loforð sín um stuðning við stríðshrjáða þjóð sem þann sama dag hafði varið hendur sínar rússneskum innrásarher í þrjú ár.
„Við höfum kynnt tafarlausar breytingar á húsnæðismálum með það fyrir augum að verja fjölskyldufólk á íbúðamarkaði. Höfum við tekið eindregna afstöðu gegn félagslegum undirboðum,“ sagði ráðherra enn fremur í ávarpi sínu.
Sagði hún næsta verkefni í kjölfar þess er unnið væri á háum vöxtum og skikki komið á fjármál ríkisins, að styrkja heilbrigðiskerfið, skólana og velferðarkerfið, meðal annars með hagsmuni fatlaðra og öryrkja að leiðarljósi.
Þá greindi ráðherra frá Úkraínuför sinni þar sem hún hefði verið í góðum félagsskap Jonasar Gahr Støre forsætisráðherra Noregs og hans dönsku starfssystur Mette Frederiksen. „Viku áður vorum við saman [á öryggisráðstefnunni] í München í Þýskalandi. Og þið getið rétt ímyndað ykkur hve kærkomið það er nýjum forsætisráðherra að hitta eintóma góða kunningja frá SAMAK. Það hefur verið mér stoð og stytta,“ sagði Kristrún á fundinum í Ósló.
Á blaðamannafundi, sem haldinn var í klukkustundarlöngu hléi frá dagskrá SAMAK-fundarins, var meðal annars rætt um nýboðað samstarf Noregs og Danmerkur í varnarmálum sem Støre greindi frá á þriðjudaginn.
„Nú eru óróatímar og krefjandi áskoranir í öryggismálum Evrópu knýja á,“ sagði norski forsætisráðherrann. „Við stöndum með félögum okkar í Úkraínu hvað varnir frelsis og lýðræðis áhrærir. Evrópa hefur aukið útgjöld sín til varnarmála og stuðning sinn við Úkraínu, en við ætlum okkur meira. Evrópa verður að taka meiri ábyrgð á eigin öryggi,“ sagði Støre enn fremur.
Benti hann á ákjósanlega möguleika Danmerkur og Noregs til að styrkja varnarsamstarf sitt. Bæði hefðu ríkin þörf fyrir að auka varnargetu sína og væru kostir samstarfs augljósir. Kæmi það til með að styrkja varnir norrænu ríkjanna í heild sinni ekki síður en varnir ríkja Norður-Evrópu.
„Við eigum þegar í samstarfi um viðhald F-35-orrustuþotanna. Með fjárfestingum á sameiginlegum vettvangi í vopnakerfum, skynjurum og skotfærum skapast færi til að draga úr kostnaði, hvort tveggja við innkaup og viðhald. Möguleikar á sameiginlegri starfsþjálfun og æfingum er svo annar vettvangur sem varnarmálaráðherrar landanna munu ígrunda,“ sagði Støre.
Atlantshafsbandalagið NATO hefur sett Danmörku og Noregi fyrir ákveðin markmið í varnarmálum og kom Støre einnig inn á þau.
„Samstarf um að uppfylla kröfur þessar verður nú mögulegt auk þess sem bæði löndin eru komin á rekspöl með innkaup langdrægra dróna til eftirlits á hafsvæðum,“ sagði Støre frá og greindi í framhaldinu frá viðræðum milli landanna tveggja um samstarf á vettvangi geimferðamála og eftirlits á hafinu.
Mette Frederiksen sagðist áður – á SAMAK-fundinum – vel skilja að jafnvel íbúar svo öruggra ríkja sem Danmerkur og Noregs fyndu til öryggisleysis við núverandi aðstæður.
„Við höfum enga þörf fyrir að mála skrattann á vegginn,“ sagði Frederiksen. „Fólk á heldur ekki að lifa við ótta. En við eigum að aðhafast. Við stjórnum ekki gjörðum Bandaríkjamanna. Við stjórnum okkar gjörðum,“ sagði hún.
Kvað hún ekki hægt að neita því að Bandaríkjamenn hefðu skapað ákveðna óvissu um gjörðir sínar til frambúðar. „Ég skil mætavel óöryggið og óvissutilfinninguna,“ sagði Frederiksen sem fyrr á fundinum hafði lýst því yfir að hennar skoðun væri að fjárfestingar í varnarmálum skyldu nema meiru en þremur prósentum af landsframleiðslu.
„Ef við ætlum okkur að bæta í með þeim hraða sem við leggjum til grundvallar getum við lent í vandræðum með að kaupa inn það sem til þarf. Þá þurfum við að sjá hvaða svigrúm við höfum hvert [ríki] fyrir sig til að nýta í sameiningu,“ sagði danski forsætisráðherrann af varnarsamstarfinu þegar farið var yfir það á blaðamannafundinum.
Spurði blaðamaður norska dagblaðsins VG hana þá hvort hún hygði á sameiginleg innkaup landanna á varnarbúnaði.
„Já, og kannski framleiða saman,“ svaraði ráðherra.
Støre tók þá aftur til máls og kvað það einsýnt að hvort tveggja Danmörk og Noregur þyrftu að bretta upp ermarnar í varnarmálum og kostirnir við að gera þetta í sameiningu blöstu við.
„Það er margt sem Noregur og Danmörk geta gert saman til að styrkja varnir okkar,“ samsinnti Frederiksen honum, „það er það sem varnarmálaráðherrar okkar munu nú leggja á ráðin um.“
Á blaðamannafundinum sagði Støre enn fremur að norrænu ríkin yrðu að fylgjast náið með þróun mála vestanhafs og gjörðum bandarískra stjórnvalda – ekki einvörðungu hvað þau segðu opinberlega.
„Hér þurfum við að tjá okkur sem forsætisráðherrar, ekki bara fréttalesendur. Nú eru fimm vikur liðnar af starfstíma sitjandi stjórnar [Bandaríkjanna]. Ég held að hún sé ekki búin að hugsa mörg mál til enda. Það er ekki hægt að gera áætlun fyrir allt. En það er algjörlega nýr stíll og samskipti sem við þurfum nú að öðlast skilning á,“ sagði Jonas Gahr Støre forsætisráðherra Noregs á þriðjudaginn.