„Mér líður mjög vel en ég skal viðurkenna það að ég er svolítið skjálfandi inni í mér akkúrat núna. Ég hafði grun um að þetta yrði jafnt og þetta var eiginlega hnífjafnt,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir í samtali við blaðamenn skömmu eftir að hún var kynnt sem réttkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi flokksins í Laugardalshöll í dag.
Sagði hún að þær Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hafi háð drengilega og kröftuga kosningabaráttu sem hafi verið Sjálfstæðisflokknum til mikils sóma.
Innt eftir því þorði hún ekki að segja í hverju munurinn á hennar framboði og Áslaugar Örnu fælist en aðeins munaði 19 atkvæðum, Guðrún hlaut 931 atkvæði og Áslaug Arna 912. Aðrir hlutu 15 atkvæði og 4 atkvæðaseðlar voru annað hvort auðir eða ógildir.
Formaðurinn var spurður hvort það væri eitthvað öðruvísi að vinna með svona litlum mun og svarði því einfaldlega að sigur væri sigur.
„Ég veit að við munum ganga sameinuð, samstillt og sterk út af þessum fundi,“ sagði Guðrún.
Guðrún kvaðst ánægð með landsfundinn og framkvæmd kosninganna en ítrekaði þó það sem hún kom inn á í framboðsræðu sinni að hún vilji skoða það og stuðla að því að forysta flokksins verði valin með opnari hætti en gert sé í dag.
Spurð hvort breytinga sé að vænta undir hennar forystu sagði Guðrún breytingar alltaf fylgja nýju fólki en hún ætli að leyfa sér að draga djúpt andann, „en vitaskuld verða breytingar,“ sagði hún.
Guðrún var þá spurð sérstaklega hvort hún hygðist skipta um þingflokksformann. Sagðist hún ekki treysta sér til að segja til um það á þessari stundu.
Guðrún er fyrst kvenna formaður flokksins og sagði það góða tilfinningu og löngu tímabært að kona leiði flokkinn.
Guðrún sagði að ná yrði til breiðari hóps aftur til að stækka flokkinn.
„Við höfum misst marga frá okkur, t.d. minni atvinnurekendur og höfum misst frá okkur fólk í aðra flokka. Ég vil aftur ná utan um þessa breidd og að við séum þetta borgaralega afl á Íslandi sem við höfum verið og eigum að vera.“
Hver verða fyrstu skrefin til að ná flokknum aftur á þann stað sem hann vill vera á?
„Ég hef talað fyrir því að við verðum að efla málefnastarf flokksins og að ég vilji ná betra talsambandi við flokksfélögin og félaga okkar hringinn í kringum landið. Ætli ég fari ekki bara í aðra hringferð núna.“
Hvernig ætlar þú að draga fram sérstöðu Sjálfstæðisflokksins.
„Ég ætla ekki að draga Sjálfstæðisflokkinn út á ystu nöf í sitt hvora áttina,“ sagði Guðrún og vísaði til annars vegar Viðreisnar til vinstri á hægri vængnum og Miðflokksins til hægri á sama væng. „Ég ætla að vera breiðfylking.“