Guðrún er nýr formaður Sjálfstæðisflokksins

Guðrún Hafsteinsdóttir er nýr formaður Sjálfstæðisflokksins, en úrslit í formannskjöri á landsfundi flokksins í Laugardalshöll voru kunngjörð rétt í þessu.

Hlaut hún 50,11 prósent atkvæða.

Alls greiddu 1862 atkvæði á fundinum en fjögur atkvæði voru ógild. Guðrún fékk 931 atkvæði en Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir 912 atkvæði.

Guðrún er fyrsta konan til gegna embætti formanns Sjálfstæðisflokksins.

Ómetanlegt að eiga Áslaugu sem bandamann

Í þakkarræðu sinni sagðist Guðrún ekki hafa farið í pólitík af persónulegum metnaði, heldur af hugsjón.

„Ég brenn fyrir þjóð mína og landið mitt. Þess vegna er þetta ekki sigur einstaklingsins, þetta er sigur okkar allra.“

Þá sagði hún baráttuna hafa verið frábæra. „Algjörlega ævintýri lífs míns,“ komst hún að orði.

Guðrún þakkaði Áslaugu fyrir kraftmikla baráttu og sagði ómetanlegt að eiga einbeittan bandamann eins og hana í pólitík.

„Því við stöndum saman í dag, saman á morgun, því framtíð Sjálfstæðisflokksins byggist á þessari samstöðu.“

Var henni tíðrætt, sem áður, um að stækka flokkinn og sagðist hún tilbúin í það verkefni.

Að kalla til þá sem hefðu yfirgefið flokkinn og líka sækja nýtt fólk, þannig að Sjálfstæðisflokkurinn yrði aftur hryggjarstykki í íslenskri pólitík.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Guðrún hlaut 50,11 prósent atkvæða.
Guðrún hlaut 50,11 prósent atkvæða. mbl.is/Ólafur Árdal
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert