Hjálmar Örn fékk hjartaáfall heima hjá sér í gær og var fluttur með sjúkrabíl undir læknishendur.
Hann er blessunarlega allur að koma til í dag og þakkar fyrir að fjölskyldan, sem öll var á leiðinni út úr húsi, hafi enn verið heima þegar hann fór að finna fyrir verkjum.
„Mér líður betur núna, miklu betur,“ segir Hjálmar í samtali við mbl.is.
„Þetta var mikið sjokk á laugardaginn.“
„Þetta var rosalegt. Þetta var bara svo rosalegur verkur fyrir brjóstinu, svo svakalega mikill að ég gat eiginlega engan veginn verið,“ segir Hjálmar.
Fattaðir þú strax að þetta væri hjartaáfall?
„Ég fattaði eiginlega strax að þetta væri eitthvað alvarlegt. Miklir verkir í sjúkrabílnum, og það sló ekki á þetta sko, þá eiginlega hugsaði ég að þetta hlyti að vera eitthvað alvarlegt.
Ég hélt fyrst að þetta hefði verið bananabrauðið,“ segir hann og hlær, „þetta væri nú ekki neitt neitt.“
Já, að það hefði farið eitthvað vitlaust ofan í þig?
„Já, farið eitthvað vitlaust ofan í mig eða eitthvert bakflæði eða eitthvað sko,“ svarar Hjálmar og tekur undir að svona sé maður gjarn á að vera of harður við sjálfan sig.
Hringdirðu strax á sjúkrabíl?
„Já, ég hringdi strax á sjúkrabíl, og hann kom bara strax. Ég bara labbaði á móti þeim sko, hljóp eiginlega inn í hann!“
Þú hefur greinilega brugðist alveg rétt við.
„Já, og þvílík fagmennska í starfsfólkinu alls staðar, ótrúlegt.“
Hjálmar fór í þræðingu í gærkvöldi og verður í framhaldinu í eftirfylgd á spítalanum. Hann segist allur vera að koma til og þakkar starfsfólki heilbrigðiskerfisins fyrir fagmennsku og kærleik í sinn garð.
„Þetta fór betur en á horfðist.“
Jafnvel eftir lífsreynslu sem þessa er stutt í húmorinn hjá Hjálmari.
„Ég er nýbúinn að leika í auglýsingu um Mottumars og að maður eigi nú að hugsa betur um sig,“ segir Hjálmar og hlær að kaldhæðni aðstæðnanna.
Í færslu á Facebook deildi hann því að hafa litið á klukkuna og hugsað til þess að fótboltinn væri að byrja. Aðspurður svarar Hjálmar:
„Já, ég leit á klukkuna þegar verkurinn var sem mestur, sá að hún var þrjú og það var laugardagur. Þá hugsaði ég: „Já, auðvitað á ég að fara klukkan þrjú á laugardegi, en ég fór ekki.“
Nei, og við þökkum fyrir það. Hefurðu þá náð að horfa eitthvað á fótboltann?
„Já, ég er að horfa núna, á Barcelona – Real Sociedad,“ svarar Hjálmar og hlær.