Dáleiðsla hefur margar hliðar og getur verið gagnleg leið fyrir fólk til að vinna úr djúpstæðum vanda. Gagnreyndar rannsóknir sýna góðan árangur dáleiðslu á ákveðnum sviðum og virtar erlendar stofnanir á heilbrigðissviði bendi á þá gagnsemi. Dáleiðsla getur líka hentað vel með annarri meðferð,“ segir Hannes Björnsson, sálfræðingur og formaður Dáleiðslufélags Íslands, en hann ætlar að halda námskeið um dáleiðslu, fyrir fagfólk, hjá Endurmenntun Háskóla Íslands í vor.
„Dáleiðsla er mjög vítt hugtak sem nær yfir margt. Fólk er með allskonar hugmyndir um fyrirbærið, til dæmis sjá margir fyrir sér dáleiðara á sviði sem getur látið fólk gera fyndna hluti, en sú dáleiðsla sem ég er að tala um er af allt öðrum toga. Sviðsdáleiðsla er mjög fjarri því sem heilbrigðisstarfsfólk almennt er að fást við í sinni dáleiðslu,“ segir Hannes og bætir við að til séu margar tegundir af dáleiðslu.
„Ein þeirra er klassísk dáleiðsla, en hana notar heilbrigðisstarfsfólk mest. Sú dáleiðsla snýst um innleiðingu, þá er fólk látið slaka á, til dæmis með því að fara í huganum á góðan og rólegan stað, svo það verði sefnæmt og minna statt í hinum meðvitaða heimi. Þetta gerir fólk móttækilegra fyrir því að taka hluti inn gagnrýnislaust, en það þýðir þó ekki að fólk geti tekið inn hvað sem er, eða að hægt sé að láta fólk hugsa hvað sem er eða gera hvað sem er. Fólk er alltaf með stjórn og statt í sjálfu sér, en það tekur inn uppbyggjandi skilaboð frá þeim sem dáleiðir, á meiri dýpt en venjulega. Þegar fólk er orðið sefnæmt þá fer það að mestu úr þeirri gagnrýnu hugsun sem það er annars í dagsdaglega. Fólk er vissulega misjafnlega sefnæmt, en það er líka lært og hægt að þjálfa. Þessa dáleiðsluaðferð, klassíska dáleiðslu, kom Jakob Jónasson geðlæknir með á sínum tíma og kenndi á Kleppi.“
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út fimmtudaginn 27. febrúar.