Kallar gamla félaga heim

Guðrún Hafsteinsdóttir, nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins, segir flokkinn sterkan eftir landsfundinn. Hún segir mikilvægt að flokknum vegni vel í komandi sveitarstjórnarkosningum og kallar hún gamla félaga flokksins aftur heim.

„Tilfinningin er góð en ég skal alveg viðurkenna að hjartað slær enn þá svolítið hratt. Það er alveg ótrúleg stemning hér á þessum fundi, búinn að vera góður andi,“ segir Guðrún spurð um tilfinninguna eftir formannskjörið.

Segir hún að sömuleiðis hafi verið góður andi í kosningaframboði sínu og Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, en aðeins 19 atkvæðum munaði á þeim tveimur.

„Ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn komi gríðarlega sterkt út úr þessari baráttu og út úr þessum fundi.“

Svolítið verið frá þingstörfum

Hver verða þín fyrstu verk sem formaður flokksins? 

„Það verður bara að koma í ljós. Ég ætla að leyfa mér aðeins að anda kannski næsta sólarhringinn. Ég þarf að hitta starfsfólk flokksins og þingflokkinn minn,“ segir Guðrún.

„Ég hef verið svolítið frá, skal ég viðurkenna, núna í febrúar á fyrstu vikum þingsins og ég hlakka til að taka þátt í þingstörfum af fullum krafti.“

Þú hefur talað um að vilja sýna fordæmi með því að endurgreiða þá styrki sem þið hlutuð áður en þið voruð skráð sem stjórnmálaflokkur. Er það enn þá á borðinu og ef svo er, hvenær yrði farið í það?

„Ég hef sagt að reglur eru reglur og lög eru lög og allir verða að fara eftir þeim. Ef það er niðurstaðan að flokkurinn hafi eitthvað fengið greitt umfram það sem honum ber samkvæmt reglum eða lögum þá munum við að sjálfsögðu endurgreiða það,“ segir Guðrún.

Íslandi farnist best þegar flokkurinn er stór, sterkur og samstilltur

Hvað verður gert til að bæta flokkinn, ekki bara í borginni, heldur á landsvísu?

„Af því að þú nefnir borgina þá er rétt rúmt ár í sveitarstjórnarkosningar og það skiptir mjög miklu máli fyrir Sjálfstæðisflokkinn að ná góðri niðurstöðu í sveitarstjórnarkosningum og sérstaklega hér í borginni. Ég mun róa að því öllum árum að við náum góðum árangri á næsta ári,“ segir Guðrún.

Kallar hún eftir því að gamlir félagar komi aftur til liðs við flokkinn og segist sömuleiðis ætla að efla grasrótarhreyfinguna.

Nóg er fram undan hjá nýja formanninum og segist hún ekki munu draga af sér að vinna að frelsishugsjóninni á Íslandi.

„Vegna þess að ég trúi því svo innilega að Íslandi farnist best þegar Sjálfstæðisflokkurinn er stór, sterkur og samstilltur. Það er verkefni mitt og okkar allra í flokknum núna næstu daga og misseri.“

Fjögur ár frá upphafi stjórnmálaferilsins

Segir Guðrún mikinn heiður að vera fyrsta konan sem gegnir embætti formanns Sjálfstæðisflokksins.

„Það er ekki langt síðan ég hóf stjórnmálaþátttöku, það eru fjögur ár,“ segir hún jafnframt.

Hún segir að það hafi ekki verið persónulegur metnaður sem dreif hana í stjórnmál heldur að hún brenni fyrir hugsjón Sjálfstæðisflokksins og að vinna að heill íslenskrar þjóðar og Íslands alls.

Forveri þinn leiddi flokkinn í 16 ár, er það markmiðið að ná að leiða flokkinn eins lengi?

„Þá verð ég komin á áttræðisaldur þannig að nei, ég tel það afar ólíklegt,“ segir Guðrún og hlær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert