Öflug lægð nálgast og gular viðvaranir taka gildi

Gera má ráð fyrir að færð spillist.
Gera má ráð fyrir að færð spillist. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Öflug lægð nálgast nú landið úr Grænlandshafi með óstöðugu éljalofti. Gengur því á með suðvestanhvassviðri eða -stormi og dimmum éljum, hvassast í hryðjum suðvestan til. 

Gul viðvörun er í gildi á Breiðafirði en um klukkan tólf á hádegi taka einnig við gular viðvaranir á Faxaflóa og Suðurlandi. Um klukkan tíu í kvöld bætist við við gul viðvörun á höfuðborgarsvæðinu. Gular viðvaranir verða í gildi fram eftir nóttu og undir morgun.

Hægari vindar og úrkomulítið á Norðausturlandi og hitastig í kringum frostmark síðar í dag. 

Líkur á að færð spillist

Líkur eru á að færð spillist sunnan- og vestanlands seinnipartinn, einkum á fjallvegum og því gætu ferðalög milli landshluta verið varasöm, að segir á vef Veðurstofu Íslands. Eru ferðamenn því hvattir til að kynna sér færð á vegum áður en haldið er af stað

Seint í kvöld er útlit fyrir að bæti enn í vind og éljagang á vesturhluta landsins, en í nótt gengur kröpp lægðabóla hratt austur yfir Norðvesturland og hvessir því einnig talsvert á Norður- og Austurlandi.

Er líður á mánudagsmorgun dregur talsvert úr bæði vindi og éljum, en seinnipartinn ganga næstu skil norður yfir landið með úrkomu í flestum landshlutum og hækkandi hita.

Veðurhorfur næstu daga:

Á mánudag:
Vestan og suðvestan 15-23 m/s og éljagangur um morguninn, en dregur síðan talsvert úr vindi og éljum. Hiti nálægt frostmarki. Hægt vaxandi suðaustanátt síðdegis með snjókomu eða slyddu og síðar rigningu sunnantil, en þurrt fyrir norðan fram á kvöld. Hlýnar smám saman.

Á þriðjudag:
Snýst í suðvestan 13-20 m/s með éljum og kólnandi veðri, en styttir upp á Norður- og Austurlandi. Hiti nálægt frostmarki síðdegis og dregur þá heldur úr vindi.

Á miðvikudag:
Hæg suðlæg eða breytileg át og dálítil él, en slydda suðaustanlands um kvöldið. Lengst af bjartviðri á Norður- og Austurlandi. Hiti kringum frostmark.

Á fimmtudag:
Hægviðri og dálítil él á víð og dreif. Frost víða 0 til 5 stig.

Á föstudag:
Norðaustlæg átt og él eða snjókoma austanlands, en annars úrkomulítið. Kólnar í veðri.

Á laugardag:
Útlit fyrir norðanátt með dálítil éljum, en bjartviðri sunnan heiða. Kalt í veðri.

Veður á mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert