Kristján Alexander Reiners Friðriksson fann ungur sína köllun í lífinu. Tónlist. Hann byrjaði snemma að leika á hljóðfæri og koma fram á tónleikum og ekki löngu síðar gerði hann sér grein fyrir því að hann hefði einnig brýna þörf fyrir að miðla. Fyrir vikið kom bara eitt starf til greina, tónmenntakennari. Róið var að því öllum árum.
„Ég hef mikla þörf fyrir að miðla og fæ mikið út úr því að sjá áhuga kvikna og nemendur taka framförum. Þess vegna gæti ég ekki verið í betra starfi,“ segir Kristján en hann starfar sem tónmenntakennari í Grundaskóla á Akranesi.
Kristján var sjálfur nemandi á unglingastigi í Grundaskóla og þar kviknaði áhugi hans á kennslu. „Það var á þeim tíma sem ég áttaði mig á því að ég vildi kenna. Ég fann athvarf í tónlistinni og það öðlaðist eitthvert fýsískt form í kennslunni,“ segir hann.
Kennarar hans áttu sinn þátt í því, ekki síst Flosi Einarsson sem síðar átti eftir að ráða hann til starfa við skólann. „Ég tengdi vel við Flosa þegar ég var nemandi og fékk góða leiðsögn hjá honum. Þá fékk ég oft að vera í tónmenntastofunni eftir skóla, yfirleitt með einhverja vini mína með mér. Strax þarna fann ég mjög sterkt að þetta væri minn staður í lífinu.“
Kristján er sjálfur virkur tónlistarmaður og á aðild að nokkrum hljómsveitum; flestar heyra þær til harðkjarnapönki og öðrum öfgastefnum. „Ég bý ekki til námskrá fyrir 5. og 6. bekk í kringum slíka tónlist,“ svarar hann brosandi, spurður hvernig þetta fari saman. „Þó ég fái útrás fyrir mína tónlistarsköpun í öfgatónlist byrjar ekki tónlistaráhugi minn og endar þar. Kennslan er eitt og mín persónulega útrás annað. Þess utan hef ég komið víða við, var til dæmis í klassískum kór þegar ég bjó í Bandaríkjunum. Ég hlusta á allan fjandann, tek tímabil í hinum og þessum stefnum og þekking mín liggur víða. Starfs míns vegna verð ég að vera með puttann á púlsinum varðandi það sem er að gerast í dag og setja mig inn í ólíka hluti,“ segir Kristján og minnir á að hann sé ekki eini rokkarinn sem kennt hafi tónlist í grunnskólum landsins. „Bæði Þráinn [Árni Baldvinsson] og Gunnar Ben í Skálmöld hafa kennt tónmennt.“
– Er einhver tónlist sem þú myndir alls ekki miðla?
„Það er góð spurning. Ég hugsa ekki. Ég er löngu búinn að losa mig við alla fordóma í sambandi við tónlist og tek því bara vel ef krakkarnir vilja læra lög sem ég bölvaði í sand og ösku þegar ég var tvítugur,“ segir hann brosandi. „Sem kennari á maður helst ekki að loka á neitt. Mér kemur samt í hug afkimi innan svartmálmsins sem ég myndi staldra við, ef svo ólíklega vildi til að einhver nemandi bæri það undir mig. Það er þó ekki á tónlistarlegum forsendum heldur hugmyndafræðilegum en þessi afkimi, National Socialist Black Metal, NSBM, aðhyllist nýnasisma og prédikar yfirburði hvíta kynstofnsins. Það þykir mér ekki geðfellt og myndi setjast niður með viðkomandi og spyrja: Heyrðu félagi, ertu viss um að þú viljir fara þangað? Annars er þetta umræða sem líklegra er að maður þyrfti að eiga við unga tónlistarmenn en nemendur í grunnskóla.“
– Er þessi afkimi uppi á yfirborðinu hérlendis?
„Nei, sem betur fer. Maður veit samt aldrei hvað kraumar undir niðri, þeir eru nefnilega til sem eru of mikið á netinu.“
Ítarlega er rætt við Kristján í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.