Síðastur í ræðustól á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í gær af þeim sem lýst höfðu yfir framboði til formanns flokksins var listamaðurinn Snorri Ásmundsson.
Snorri er fæddur árið 1966. Hann hefur lengi látið sig stjórnmál varða en hann bauð fram til sveitastjórnarkosninganna 2002 undir merkjum þess sem hann sjálfur hefur kallað klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum, Vinstri, hægri snú. Hann tilkynnti þá framboð til forseta Íslands árið 2003 en dró framboð sitt til baka nokkrum vikum fyrir kosningar.
Árið 2009 bauð Snorri sig einnig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins en það var einmitt þá sem Bjarni Benediktsson, fráfarandi formaður, tók við formennsku í flokknum.
Í fréttatilkynningu Snorra vegna framboðs hans til formanns sagði meðal annars að hann hafi ákveðið að bjóða fram krafta sína eftir að hafa fengið skilaboð í draumi.
Ólafur Thors kom til hans í hvítum jakkafötum og rétti honum epli. Margaret Thatcher stóð á bak við Ólaf og brosti. Snorri tók eplið og sá að í það var skorið bókstafurinn D. Hann leit þá aftur á Ólaf sem hafði breyst í Bjarna Benediktsson.
Draumaráðningarfólk var sammála Snorra að um væri að ræða skýr skilaboð um að Snorri ætti að taka við flokknum.
Birgir Ármannsson, fundarstjóri landsfundar, þurfti að sussa á fundarmenn eftir að hann hafði tilkynnt um að Snorri myndi taka til máls og á einum tímapunkti þurfti Snorri sjálfur að hasta á landsfundargesti til að fá betra hljóð í salinn.
Listamaðurinn tók sinn tíma til að hefja mál sitt og afsakaði sig við fundarmenn – sagðist vera að senda ræðuna sína úr símanum í ipadinn.
Ræða Snorra hófst sem eins konar þakkarræða réttkjörins formanns Sjálfstæðisflokksins. Hann sagði þá að fráfarandi formaður og kona hans væru þau einu sem hefðu komið á píanótónleika hjá honum.
Hann líkti þá stjórnunarstíl sínum við stíl Donald Trump Bandaríkjaforseta og sagðist myndu ráðast í aðgerðir ásamt aðstoðarmanni sínum Björgólfi Thor til að herða sultarólarnar og fá sem mest út úr hverjum og einum.
Hann sagði alþingiskosningar verða aftur í haust og að Sjálfstæðimenn yrðu vel undirbúnir. Eftir kosningar myndu íslensk fyrirtæki fara í mikla útrás og innan tíðar Íslendingar ná góðum árangri í viðleitni sinni til að ná stjórn og áhrifum í öðrum löndum og heimshlutum. Langtímamarkmiðið væri að ná völdum yfir Bandaríkjunum.
Sagðist Snorri hafa farið til spákonu fyrir 35 árum sem sá ekkert annað en Bandaríkin í bollanum hans.
Snorri sagðist þó vilja byrja á flokknum. Hreinsa til og breyta fyrirkomulagi hans. Hann myndi kynna nýjar áherslur sem flokkurinn þyrfti á að halda. Hann væri dálítið staðnaður og laskaður og þó stefnan væri falleg þyrfti að dytta að ýmsu.
Sagði hann sig og Björgólf Thor myndu betrumbæta eins og hægt væri og mála Valhöll úr gulli.
Í nýrri ríkisstjórn yrði Snorri forsætisráðherra og Björgólfur fjármálaráðherra og helsti ráðgjafi Snorra til að fá það besta úr öllu mögulegu.
Snorri sagðist ætla að senda allt „woke-liðið“ á alvöru sveppatripp og gera það að nytsömum þegnum Íslands.
Sagði hann Íslendinga vera hraustmenni enda komna af sjómönnum og víkingum. Þeir ættu að vera stoltir af yfirtökum sínum á eignum og landsvæðum. Hann sagðist hafa fulla trú á að með klækjum við gætum náð yfirráðum yfir Bandaríkjunum, enda kunni hann að díla við menn eins og Trump.
„Snorri hinn mikli og Björgólfur Thor vs. Trump og Musk? Það er ekki spurning hver sigrar þann bardaga.“
Snorri bað flokkinn afsökunar að hafa kostað hann borgina með framboðinu Vinstri, hægri snú á sínum tíma. Þá bað hann Geir H. Haarde afsökunar að hafa tekið fram fyrir hendurnar á honum og afhent honum uppsagnarbréf Davíðs Oddsonar í beinni útsendingu.
Þá minntist hann á kattaframboðið, sem hann stóð fyrir á Akureyri sem hafi orðið til þess að hann eignaðist óvini innan flokksins.
Baðst hann í kjölfarið fyrirgefningar ef einhver Sjálfstæðismaður í salnum væri sár út í hann og minnti í leiðinni á aflátsbréfin sem hann hefur selt síðan 2002, afsláttur yrði gefinn fyrir Sjálfstæðismenn.
Snorri sagðist vilja bann viðskiptahalla, sagðist ekki útiloka tolla og í raun ekki útiloka neitt.
Þá vitnaði listamaðurinn í nýfallin listamann, Gene Hackman: „Munurinn á hetju og hugleysingja er eitt skref til hliðar.“
Að endingu minnti hann meðframbjóðendur sína á að tap væri í raun stórsigur og öll framboð jafn mikilvæg.
Hann þakkaði auðmjúkur traustið og sagðist stoltur taka við keflinu af Bjarna Benediktssyni. Hann þakkaði honum sitt mikla og vanþakkláta starf og sagðist myndu gefa Bjarna og Þóru konu hans boðsmiða á jólatónleika sína næstu jól.
Snorri sagðist þá treysta því að landsfundarmenn létu ekki afvegaleiða sig og blekkja til að kjósa einhvern annan en sig í formannskosningunum því hann sé réttkjörinn formaður flokksins.
Sagðist hann hafa allt sem til þurfi til að mæta vanda framtíðarinnar eins og t.d. geimverunum sem séu að koma.
Að lokum brast Snorri Ásmundsson í söng. Lagavalið var allrar athygli vert – Ó jesú bróðir besti.
Hann hvatti fólk til að taka undir og sérstaklega Bjarna Benediktsson, sem kynni lagið enda hafi Snorri kennt honum það.
Listamaðurinn var ekki alveg nógu ánægður með undirtektir í salnum og söng lagið því aftur áður en hann þakkaði fyrir sig.