23 sagt upp í sláturhúsi SAH afurða á Blönduósi

mbl.is/Sigurður Bogi

Kjarnafæði Norðlenska, sem á og rekur sláturhús SAH afurða á Blönduósi, tilkynnti starfsfólki á starfsmannafundi á föstudag að 23 af 28 starfsmönnum sláturhússins yrði sagt upp.

Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Kjarnafæði Norðlenska, staðfestir þetta í samtali við mbl.is, en Rúv greindi fyrst frá.

Ágúst segir að starfsfólki félagsins á Blönduósi standi til boða vinna á öðrum starfsstöðvum þess en félagið vilji þó ekki hvetja fólk sérstaklega til að flytja frá Blönduósi.

„Við sögðum á fundinum að við myndum gera allt sem í okkar valdi stendur til að vera fólki innan handar, hvort heldur í atvinnuleit eða ef fólk getur hugsað sér að vinna áfram hjá félaginu á öðrum starfsstöðvum.“

Vinda niður starfsemina

Ágúst segir standa til að skala niður starfsemina á Blönduósi og að lokum að koma húsakosti í verð. Ákveðið hefur verið að sauðfé verði ekki slátrað á Blönduósi í haust en félagið hefur slátrað verulegu magni þar undanfarin ár og ráðið yfir 100 manns í skammtímaráðningu til að sinna því starfi.

Þá hafi félagið verið með starfsemi á Blönduósi utan sláturtíðar þar sem hafa verið um 25-28 starfsmenn. Í dag séu þeir 28 talsins.

„Við gerum ráð fyrir að við munum vinda niður aðra starfsemi á starfstöðinni í áföngum á komandi mánuðum.“

Gríðarleg hagræðingarþörf

Ástæðan fyrir þessum aðgerðum er að sögn Ágústar að hagræðingarþörfin í greininni sé gríðarleg og ekki sé hægt að bíða. Félagið hafi ekki efni á því, hafi ekki þann lúxus, eins og hann orðar það.

Erfiðar aðstæður voru í rekstri félagsins á síðasta ári. Í nýlegri tilkynningu á vef félagsins kemur fram að afkoma þess hafi verið neikvæð sem nemur um 250 milljónum króna fyrir skattaleg áhrif á árinu.

Um sé að ræða mikla breytingu á afkomu frá fyrra ári þegar hagnaður varð af reksri. Stærstu áhrifaþættir versnandi afkomu eru sagðir miklar kostnaðarhækkanir á aðföngum, launum og þjónustu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert