Höfuðstöðvar framleiðslufyrirtækisins True North urðu fyrir miklu tjóni um helgina er öldugangur á Granda lagði húsnæðið í rúst. Að sögn stjórnarformanns fyrirtækisins hefur margoft verið talað við Faxaflóahafnir um það að hækka þurfi varnargarðana fyrir framan húsnæðið.
Nokkur fyrirtæki sem eru staðsett í byggingunni á Fiskislóð 31 urðu fyrir verulegum skaða eftir að öldur náðu yfir varnargarðinn fyrir framan húsnæðið. Fylgdi öldunum töluvert af grjóti og þara sem brutu gluggan og náðu því inn í bygginguna.
„Þetta er rosalegt sjokk og bara verulegt sjokk líka fyrir starfsfólk sem kom að þessu svona,“ segir stjórnarformaðurinn Guðjón Ómar Davíðsson í samtali við mbl.is
Um næstu skref segir Guðjón að von sé á samtölum við tryggingarfélagið, Faxaflóahafnir og þá hugsanlega Náttúruhamfaratryggingar til þess að sjá með hvaða hætti sé hægt að bæta fyrirtækinu upp það tjón sem það stendur frammi fyrir.
„Núna erum við bara að fara að taka til og koma okkur fyrir annars staðar á meðan þetta gengur yfir.“
Er eitthvað hægt að segja um hve langan tíma það gæti tekið að taka þetta í gegn?
„Nei, það gætu vel verið kannski tveir mánuðir.“
Er vitað hvað tjónið vegur þungt fjárhagslega?
„Nei, við áttum okkur ekki á því en það er allt meira og minna ónýtt á þessari hæð,“ segir Guðjón og vísar þar í neðri hæð húsnæðisins. Einnig er þar að finna efri hæð sem slapp betur frá skaða.
„En þetta er rosalegt tjón. Við vitum ekkert hvaða tölur eru í þessu en við erum að vinna í að taka það saman.“
Aðspurður segir hann ábendingar hafa borist til Faxaflóahafna um að hækka þurfi þá varnargarða sem séu fyrir framan allt húsnæðið.
Komið hafi áður fyrir að öldur nái yfir garðana en þó aldrei í þeim mæli sem sást um helgina.
Eru það ítrekaðar ábendingar þá?
„Húsfélagið hefur verið með þetta – við skulum heyra hvað þeir hafa að segja – en það er allavega búið að tala margoft við þá og þeir hafa oft þurft að þrífa hérna steina frá.“
Þá segir hann varnargarðinn hafa að hluta til verið hækkaðan af Faxaflóahöfnum en það hafi „ekki dugað betur en þetta.“
„Plús það að það er náttúrulega bara mjög hættulegt fyrir gangandi vegfarendur sem hafa verið settir í þá hættu að labba hérna fram hjá.“