Mæðgur á Húsavík efndu í gær til móts í fremur sérkennilegri íþrótt: hobbíhestreiðum. Íþróttin hefur vakið athygli á samfélagsmiðlum undanfarin ár og er sérstaklega vinsæl meðal ungra stúlkna.
Arnheiður María Hermannsdóttir, átta ára Húsvíkingur sem verður reyndar níu ára í vor, kynntist nýlega íþrótt í gegnum YouTube. Síðan þá hefur varla verið aftur snúið þar sem íþróttin er orðið að hennar fremsta áhugamáli.
Íþróttin – sem hefur enn ekki fengið opinbert heiti á íslensku en verður kölluð „hobbíhestreiðar“ hér – gengur út á það að ríða á prikhesti í gegnum þrautabraut.
Þar skiptir ímyndunaraflið miklu máli, en ekki síst sprengikrafturinn.
Arnheiður fékk nýlega þá hugmynd að efna til hobbíhestamóts í Húsavík og móðir hennar, Guðný María Waage, gekk í málið.
„Þetta var bara smá hugmynd heima. Arnheiður, dóttir mín er svo dugleg í þessu, að búa til brautir heima fyrir og hoppa og bjóða vinkonum sínum,“ segir Guðný María, í samtali við mbl.is.
„Stofan var orðin ein íþróttabraut.“
Og með aðstoð FadLab og Hagsmunasamtaka barna á Húsavík varð þessi hugdetta Arnheiðar að veruleika. FadLab útbjó smiðju í síðustu viku þar sem börn gátu föndrað sinn eigin hest og Norðurþing veitti þeim síðan afnot af íþróttahöll Húsavíkur í gær þar sem þau settu upp þrautabraut.
Mótið sló í gegn og hátt í 30 börn á aldrinum 5-12 ára mættu.
„Það var hoppað í nánast einn og hálfan tíma,“ segir Guðný. Mörg börnin fengu þar að prófa hobbíhestreiðar í sitt fyrsta sinn á mótinu.
„Og þeim fannst það geggjað gaman,“ bætir Guðný við.
En það kom einnig í ljós á mótinu að Arnheiður var ekki eina barnið sem hafði dottið í þetta áhugamál.
„Ég fann aðra foreldra þar sem stelpurnar þeirra voru einmitt í sömu sporum. Búnar að vera að breyta stofunni heima eða í garðinum,“ segir Guðný, sem er ánægð að hafa dóttir sín hafi fundið nýjar vinkonum með sama áhugamál og hún sjálf.
Stöldrum aðeins við.
Það getur verið að þessi íþrótt kunni að koma lesendum spánskt fyrir sjónir, minni jafnvel frekar á Quidditch en raunverulegar hestreiðar. En á undanförnum árum hefur hún orðið nokkuð vinsæl erlendis, ekki síst í Skandinavíu.
Íþróttin á rætur að rekja til Finnlands en þar hafa hobbíhestasamtök verið starfandi frá 2004 og halda þau landsmót á hverju ári. Íþróttin vakti fyrst alþjóðlega athygli árið 2017 vegna heimildarmyndar sem gerð var um hobbíhestreiðar og nefnist „Prikhestabyltingin“ (fin. Keppihevosten vallankumous).
Íþróttin hefur nú teygt anga sína til fleiri landa landa, m.a. til Íslands, og virðist einkum vinsæl meðal stúlkna.
Líkt og í hestreiðum eru til mismunandi gangtegundir í hobbíhestamennsku. Bresku hobbíhestasamtökin útlista m.a. í handbók sinni fet, brokk og stökk.
Þá hafa myndbönd af hobbíhestamennsku einnig vakið mikla athygli á samfélagsmiðlinum TikTok undanfarið ár. En ósjaldan mætir íþróttin háði og spotti í netheimum.
„Arnheiður sá þetta fyrst á YouTube og átti þá þegar einn svona hest,“ segir Guðný er hún rekur söguna af þessu áhugamáli dóttur sinnar. „Svo týndist prikið og þá var keyptur aðeins betri hestur handa henni.“
Á endanum leið á daginn að hún fékk afar fínan hobbíhest í jólagjöf – finnskt handverk sérhannað fyrir keppnir í hobbíhestreiðum.
Það er því ljóst að þessi íþrótt er ekkert grín, og eins og sjá má á myndum sem Hafþór Hreiðarsson fréttaritari tók af mótinu, þá eru Arnheiður og hobbíhesturinn orðnir þaulreyndir stökkvarar.
„Hún segir að þetta sé allt hesturinn, ekki hún,“ segir móðirin og hlær örlítið við. „Það er bara ímyndunaraflið.“