Með því að spara 2% þegar kemur að opinberum innkaupum væri hægt að ná árlega fram 6 milljarða hagræðingu og þar með 30 milljörðum yfir fimm ára tímabil. Þetta telur hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar vera raunhæft markmið með markvissum aðgerðum.
Tillögur starfshópsins voru kynntar fyrr í dag, en þar voru lagðar til sparnaðartillögur upp á 71 milljarð yfir fimm ára tímabil. Stærsti einstaki liðurinn í þessum tillögum eru opinber innkaup, enda ver svokallaður A-hluti ríkisins nú um 60 milljörðum árlega í opinber innkaup. Það gerir 300 milljarða yfir umrætt tímabil.
Fram kemur í tillögunum að mikil tækifæri séu þar til hagræðingar sem hin nýsameinaða stofnun Fjársýslan þarf að leiða. „Rafrænar tengingar milli reikninga og samninga skortir. Stofnanir þurfa að gera innkaupaáætlanir í ríkari mæli. Margir samningar eru útrunnir. Aðrir eru of víðir, en það er þannig í dag að rammasamningar eru opnir sveitarfélögum og ýmsum samtökum ótengdum ríkinu og því ekki hægt að gefa eða framfylgja magnloforðum,” segir í tillögunum.
Lagt er til að hlutverk Fjársýslunnar verði skoðað með tilliti til samkeppni við einkaaðila sem veita innkaupaþjónustu. Sérstök áhersla er lögð á upplýsingatækni í þessu samhengi.
Telur starfshópurinn að strax á þessu ári sé hægt að ráðast í sparnaðaraðgerðir í opinberum innkaupum og að 6 milljarða sparnaður árlega ætti að vera vel raunhæfur.
Sparnaður í opinberum innkaupum hefur verið ofarlega í huga fjármálaráðherra um nokkurn tíma, en árið 2014 var starfshópur stofnaður til að skoða innkaupamál ríkisins. Var niðurstaða formanns þess hóps í raun að ríkið hefði ekki yfirsýn yfir tugmilljarða árleg innkaup.
Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármálaráðherra hafði áður sagt að enginn væri með 190 innkaupastjóra og vísaði þar til fjölda ríkisstofnana og að bæta ætti innkaupin m.a. með magninnkaupum í stað þess að hver stofnun væri að velja t.d. mismunandi stóla, jafnvel þótt það orsakaði meiri einsleitni.
Taldi Bjarni þá að hægt ætti að ver að spara 2-4 milljarða árlega með betri áætlanagerð ríkisstofnana.
Árið 2023, eða um 8 árum eftir ummæli Bjarna ræddi blaðamaður aftur við hann meðal annars um árangur af þessum innkaupamálum. Þá hafði Bjarni haldið fund um stöðu ríkisfjármála og niðurskurðar- og aðhaldsáform í ríkisrekstri fyrir árið 2024.
Taldi hann þá að hægt væri að ná innkaupum talsvert niður og að slíkur árangur hefði náðst hjá ákveðnum stofnunum. Hins vegar hefði ferlið mátt ganga hraðar og sagði hann að aðal vandamálið væri skortur á gögnum fyrir Ríkiskaup og að opnað hefði verið fyrir aðgang stofnunarinnar inn í ríkisbókhaldið. Þar með væri hægt að bera saman hvernig innkaup væru stunduð hjá ólíkum stofnunum.
Sagði Bjarni við það tilefni að hann þekkti til þess að ríkisforstjórar hefðu verið ósamvinnþýðir þegar kæmi að því að ná fram sparnaði með hópkaupum og að ná niður opinberum innkaupum.