Aðgerðum frestað til morguns

Frá vettvangi á Akranesi í gærmorgun.
Frá vettvangi á Akranesi í gærmorgun. mbl.is/Klara

Aðgerðum við að ná bílunum tveimur sem fóru í sjóinn við höfnina á Akranesi í gærmorgun hefur verið frestað til morguns.

Þetta segir Ásmundur K. Ásmundsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vesturlandi, í samtali við mbl.is.

Slæm skilyrði

Aðgerðunum var frestað um sjöleytið í gærkvöld vegna veðurs en til stóð að halda þeim áfram í morgun.

„Það er búið að fresta aðgerðum til morguns vegna veðurs. Skilyrðin eru slæm í höfninni og hún er lokuð,“ segir Ásmundur.

Fundað í morgun

Hann segir að björgunarfélagið á Akranesi og köfunarþjónustan, sem vinna að því að ná bílunum upp, hafi fundað í morgun og ákveðið hafi verið að fresta aðgerðum til morguns.

Tveir menn og tveir bílar lentu í sjónum þegar stór alda hreif þá með sér. Annar mannanna er á gjörgæsludeild. Ásmundur segist ekki vita um líðan hans en málið er til rannsóknar hjá lögreglunni á Vesturlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert