„Alveg ljóst“ að flogið verður áfram til Ísafjarðar

Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. mbl.is/Eyþór

Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir það alveg ljóst að haldið verði áfram að fljúga til Ísafjarðar. Ríkisstjórnin sé einhuga um það. Hann telur markaðsforsendur vera fyrir flugferðunum verði haldið áfram og hefur óskað eftir fundi sem allra fyrst með forstjóra Icelandair.

Þetta kemur fram í samtali Eyjólfs við mbl.is.

Skilur forsendur Icelandair

Ráðherrann segist skilja forsendur Icelandair. Vélarnar sem hafa flogið til Ísafjarðar, af tegundinni Bomb­ar­dier Dash 200, hafa einnig verið notaðar í flugferðir til Ilulissat og Nuuk í Grænlandi. Þar hafa verið gerðar breytingar á flugvöllunum og munu því stærri vélar geta flogið þangað.

Að sögn Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair, stendur Ísafjörður ekki undir kostnaði sem eini áfangastaður minni vélanna. Þá geta stærri vélarnar í innanlandsfluginu ekki lent á Ísafjarðarvelli vegna krefjandi aðstæðna.

Gæti vel verið að annað félag taki við

Eyjólfur segir málið hafa verið rætt á ríkisstjórnarfundi í morgun.

„Ég tók þetta upp á ríkisstjórnarfundi og ég get ekki sagt annað en að við erum einhuga um það að það verði áfram flogið á Ísafjörð í framtíðinni. Það er alveg ljóst,“ segir ráðherrann.

„Hvernig það verður er hins vegar annað. Það gæti vel verið að annað félag komi þarna inn.“

Markaðsforsendur fyrir áframhaldandi flugferðum

Nefnir hann að markaðsforsendur hafi verið fyrir því að fljúga til Ísafjarðar. Frá árunum 2014-2023 hafi farþegafjöldinn verið á bilinu 30-35 þúsund ár hvert.

Þýðir það að ef fluginu yrði haldið áfram með ríkisstyrk yrði það langstærsti styrkurinn úr ríkissjóði. Til samanburðar tekur Eyjólfur sem dæmi að fjölmennasta flugleiðin sem sé styrkt af ríkinu sé til Hornafjarðar.

Þar hafi farþegar, á tímabilinu 2014-2023, verið um 8.500 til 11.000 ár hvert og kostar flugleiðin ríkissjóð 330-340 milljónir á ári.

Mun funda með forstjóranum sem allra fyrst

Þá ítrekar ráðherrann mikilvægi flugleiðarinnar. 

„Þetta er ótrúlega mikilvægt fyrir atvinnulífið þarna og fyrir stjórnsýsluna. Það er einnig mikil verðmætasköpun á Ísafirði og Vestfjörðum.“

Hann segist munu eiga fund með Boga Nils, forstjóra Icelandair, sem óskað hafi verið eftir sem allra fyrst.

„Til að skoða þetta og hvernig þeir sjá framtíðina. Fá nánari upplýsingar um málið. Svo verðum við bara að vinna eftir þeim tækjum og tólum sem við höfum.“

„Þetta hefur verið rekið á markaðslegum forsendum og það er mikilvægt að það verði hægt að gera það áfram á þeim forsendum. Ef þetta þarf að fara inn í hitt kerfið [ríkisstyrkt] þá er það líka stórt mál og við skulum vona að það verði ekki. En við skulum bara sjá hvernig þetta þróast,“ segir Eyjólfur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert