Gengi vasaþjófa herjar á ferðamenn við vinsæla ferðamannastaði á Suðurlandi. Lögregla hefur um tíu manna hóp erlendra einstaklinga grunaða um að standa að þjófnaðinum og telur ljóst að um skipulagða brotastarfsemi sé að ræða.
Dagur Jónsson landvörður Náttúruverndarstofunnar segir hópinn „dulbúa sig“ sem ferðamenn og að hann velji augnablikin áður en látið er til skarar skríða. Hann segir að gjarnan séu fórnarlömbin umkringd þjófunum um leið og þau dást að náttúruperlum.
„Þegar Strokkur gýs standa kannski 300-500 manns í kringum hann og þegar allir eru að skoða hann þá hrúga þjófarnir sér inn í hópinn og fara í bakpokana, í mittistöskur og annað. Svo eru aðrir sem taka við þýfinu, þannig að sá sem stelur kemur þessu á annan eftir eina til tvær mínútur,“ segir Dagur.
Að sögn hans eru þeir einna helst á höttunum eftir evrum, dollurum, pundum og krónum, sem notaðar eru til þess að versla hluti hérlendis. Hins vegar skilja þeir eftir kreditkort og peninga frá asíulöndum t.a.m.
„Fólk sem lendir í þessu er alveg svakalega reitt, enda er þetta mikil árás á einkalífið,“ segir Dagur.
Hann segir komu þjófagengjanna hafa verið reglulega í febrúar, mars og júlí undanfarin ár. Hann vill hvetja alla leiðsögumenn til þess að láta vita af því þegar einhver úr þeirra hópi verður fyrir barðinu á þjófunum. Að öðrum kosti sé erfitt að halda utan um umfang þjófnaðarins.
Þjófagengið hefur ekki einungis verið að störfum við Gullfoss og Geysi. Sama vandamál hefur verið á Þingvallasvæðinu.
Í færslu sem birtist á Facebooksíðu Þingvalla er sagt eilítið nánar frá aðferðafræði þjófanna sem virðast byrja dagana þar áður en þeir færa sig á Geysis- og Gullfosssvæðið.
„Nánari athugun hefur leitt í ljós að hópurinn hefur komið til Þingvalla á sama tíma á morgnanna fimm daga í röð og síðan haldið austur á Geysi og Gullfoss til þess að stela frá ferðamönnum. Hópurinn samanstendur bæði af konum og körlum, er þrautþjálfaður og með skipulagða aðferðafræði. Tveir til þrír standa á varðbergi, kanna hvort eitthvert eftirlit sé á svæðinu og gefa hinum síðan merki. Tveir til þrír velja sér fórnarlömb. Stolið er úr bakpokum eða töskum gesta með því að ganga þétt upp við þá eða með því að dreifa athygli þeirra. Oftar en ekki er það gert með því að bjóða fram aðstoð við myndatöku. Á meðan því stendur hnuplar annar þjófur úr vösum fórnarlambsins.“
Garðar Már Garðarsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir lögregluna meðvitaða um vandamálið og að unnið sé að því að bregðast við.
„Við höfum hug á því að vera með stífara eftirlit. Okkur hefur borist talsvert af tilkynningum og þetta virðist vera gengi sem stundar þetta,“ segir Garðar.
Að sögn hans hefur lögregla undir höndum myndir af nokkrum einstaklingum sem hafa verið tilkynntir í tengslum við þjófnaðinn.
„Þetta er mjög vel skipulagt af þeim og er klárlega liður í skipulagðri glæpastarfsemi. Okkur grunar að þetta sé um tíu manna hópur sem er virkur í þessum þjófnaði,“ segir Garðar.