Faðir 15 ára drengs sem glímir við fíknivanda, og lauk hefðbundinni meðferð á Stuðlum síðasta haust, hefur ítrekað þrýst á Barna- og fjölskyldustofu um að finna einhverja lausn þar til meðferðarheimili í Gunnarsholti á Rangárvöllum verður opnað og aftur verður í boði langtímameðferð fyrir drengi.
Sonur hans, sem bíður eftir að komast í langtímameðferð, hefur verið vistaður á Stuðlum ásamt afbrotamönnum undir 18 ára og drengjum í harðri neyslu síðustu vikur, eftir að hann lauk hefðbundinni meðferð þar. Drengurinn á ekki í heima í þeim hópi, en það er eina skjólið sem honum býðst.
Að minnsta kosti sex mánuðir eru þar til hægt verður að opna meðferðarheimilið í Gunnarsholti, þar sem tekið verður á móti drengjum í langtímameðferð. Sú starfsemi var áður á Lækjarbakka, en loka þurfti heimilinu í apríl á síðasta ári þegar upp kom mygla í húsnæðinu.
Fjármagnið sem ætlað er í langtímaúrræði fyrir drengi með fjölþættan vanda er bundið Gunnarsholti og því er erfitt að ráðast í bráðabirgðalausnir til að brúa bilið fram að opnun, að sögn framkvæmdastjóra meðferðarsviðs Barna- og fjölskyldustofu.
Ekkert langtímameðferðarúrræði hefur verið í boði fyrir drengi í tæpt ár, líkt og mbl.is hefur fjallað um.
Hefur sú staða reynst ákveðnum hópi drengja og fjölskyldum þeirra mjög erfið og eru dæmi um að drengir með fjölþættan vanda, til að mynda fíkni- og hegðunarvanda, sem þurfa að komast í langtímameðferð, hafi verið vistaðir með drengjum í gæsluvarðhaldi á Stuðlum, líkt og drengurinn sem um ræðir.
Á Stuðlum er hann í einhvers konar langtímaúrræði, við óboðlegar aðstæður, að mati bæði foreldra hans og annarra sem þekkja til.
„Þetta gengur brösulega, hann er inni með glæpamönnum sem eru yngri en 18 ára. Þetta ekki meðferðarheimili, en hann er þarna í öryggi og skjóli. Þetta er bara algjört neyðarúrræði,“ segir faðir drengsins í samtali við mbl.is.
„Við erum að bíða og við höfum verið að þrýsta á það frá því fyrir áramót að Gunnarsholt verði tekið í gagnið,“ bætir hann við.
„Ég er ekki bara að horfa á þetta fyrir son minn, það eru sex pláss þarna sem er verið að bíða eftir.“
Það var í nóvember á síðasta ári að tilkynnt var að búið væri að finna meðferðarheimilinu Lækjarbakka nýtt húsnæði í Gunnarsholti en í millitíðinni, nánar tiltekið í maí, hafði verið skrifað undir leigusamning að Hamarskoti í Flóahreppi. Starfsemi átti að hefjast strax í júní á síðast ári, en úr því varð ekki.
Við undirritun leigusamningsins sagði Ásmundur Einar Daðason, þáverandi mennta- og barnamálaráðherra, að þrotlaus vinna hefði farið í að finna meðferðarheimilinu stað.
„Hver dagur sem líður án viðunandi aðstöðu er einum degi of mikið, fyrir drengina á meðferðarheimilinu og einnig fjölskyldur þeirra,“ var haft eftir Ásmundi Einari í tilkynningunni. Ellefu mánuðir eru síðan Lækjarbakka var lokað. Það eru um 330 dagar. 330 dagar án nokkurrar aðstöðu fyrir þessa drengi. Sem er 330 dögum of mikið, ef marka má orð Ásmundar Einars.
Leigusamningurinn var undirritaður án þess að nokkuð samráð hefði verið haft um starfsemina við sveitarfélagið Flóahrepp. Lýsti sveitarstjórinn furðu sinni yfir algjöru samráðsleysi um málið í tölvupósti til Funa Sigurðssonar, framkvæmdastjóra meðferðarsviðs Barna- og fjölskyldustofu, eftir að leigusamningur hafði verið undirritaður og greint frá málinu á vef mennta- og barnamálaráðuneytisins. Í póstinum kom fram að skortur á upplýsingum væri að valda íbúum á svæðinu óöryggi og bent á að þrír bæir þar sem væri föst búseta, væru í innan við 1 kílómetra fjarlægð frá Hamarskoti.
Hamarskot er nú til sölu og í lýsingu á eigninni er tekið fram að víða séu rakaskemmdir og tími sé kominn á ýmislegt viðhald.
Ráðast þarf í meiri framkvæmdir í Gunnarsholti en búist var við í upphafi og er nú verið uppfæra kostnaðarmat áður en hægt er að fara í útboð á verkefninu. Framkvæmdir eru því enn ekki hafnar.
Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar, hefur talað fyrir því að meðferðarheimilið Háholt í Skagafirði verði opnað aftur til að bregðast við úrræðaleysi í málefnum barna með fjölþættan vanda. Um er að ræða húsnæði sem byggt var sérstaklega undir starfsemi meðferðarheimilis, en því var lokað árið 2017. Jón vill að það verði skoðað af alvöru að meta kosti og galla þess að nýta Háholt aftur í þessum tilgangi.
Funi sagði í viðtali á RÚV í febrúar að það væri ekki lausn að opna starfsemi í Háholti, enda væri fjarlægðin frá höfuðborgarsvæðinu hindrun. Til dæmis í ljósi þess að almennt væri reynt að tryggja að fangar væru ekki of fjarri fjölskyldum sínum.
Í samtali við mbl.is segir Funi alveg mega skoða að nýta Háholt ef fjölga eigi úrræðum, en það komi ekki til greina sem bráðabirgðalausn.
„Háholt kemur alveg til greina eins og hvað annað ef við erum að bæta við kerfið, en ekki sem „alternative“ við eitthvað. Ef við erum að tala um sex mánaða bið, sirka, eftir Gunnarsholti þá getum við ekki farið í bráðabirgðalausn. Það tekur þrjá mánuði að ráða fólk og örugglega þrjá mánuði að laga þetta hús. Þannig það kemur ekki til greina út frá þeim forsendum,“ segir Funi.
„Ég bara bendi á annmarkana við þetta og svo höfum við visst fjármagn til að vinna út frá og ef það á að bæta við fjármagni þá má það alveg vera Háholt eins og hvað annað. En ég bendi á annmarkana og það er mitt að gera það. Alveg eins og það eru kostir,“ segir hann jafnframt.
Þá segir Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, í samtali við mbl.is Háholt ekki ákjósanlega lausn, bæði vegna fjarlægðar barna frá ástvinum og af því erfitt geti reynst að manna stöður fagaðila.
„Mín afstaða er mjög einföld. Við erum að reyna að byggja upp í Gunnarsholti. Það gengur auðvitað hægar en maður myndi vilja en það er á fullu skriði. Þar er fjármagnið fyrir meðferðarheimilinu okkar bundið. Það er ekki bara ég eða barna- og fjölskyldustofa sem getur ákveðið að opna líka í Háholti. Hér þarf 350 milljónir til að gera það,“ segir Funi.
Unnið er að gerð útboðsgagna vegna verkefnisins, en líkt og áður sagði þurfti að uppfæra kostnaðarmat þar sem í ljós kom að ráðast þarf í meiri framkvæmdir en áður var talið. Í kjölfarið tekur samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir málið fyrir. Þegar samþykki nefndarinnar liggur fyrir er hægt að ráðast í útboð og í framhaldinu verður hægt að hefja eiginlegar framkvæmdir við húsið.
„Við erum bara að fara eftir lögum og það tekur tíma að gera þetta allt rétt,“ segir Funi.
Þannig framkvæmdir sem slíkar eru ekki hafnar?
„Nei það er bara minniháttar rif búið að eiga sér stað. Það þurfti að uppfæra kostnaðarmatið út frá því niðurrifi. Það þarf að laga eitthvað meira heldur en sást við sjónskoðun.“
Þannig það þarf að gera meira en stóð til fyrst?
„Já, bara án efa.“
Spurður hvort það sé ekki hætt við því að þau lendi í sömu vandræðum og með meðferðarheimilið sem opna átti í Blönduhlíð í Mosfellsbæ í desember en var aldrei opnað, segir Funi ekkert benda til þess. Í ljós kom að Blönduhlíð stóðst ekki brunaúttekt, þrátt fyrir endurbætur. Ekki fékkst því starfsleyfi og ólíklegt er að þar verði nokkurn tíma rekið meðferðarheimili.
„Allar þær upplýsingar sem við höfum núna benda til þess að við séum á réttri leið. Það er búið að gera brunahönnun, það er búið að fá byggingarleyfi, það er búið að gera áhættumat og þarfagreininguna og teikna þessar breytingar inn sem þarf að gera.
Svo er bara að verið að klára að meta kostnað við þessar breytingar svo það liggi fyrir hvort þetta eru 100 milljónir eða eða 150 milljónir sem það kostar að gera þetta.
Svo fer það fyrir þessa nefnd sem tekur síðan ákvörðun um það hvort þetta sé ásættanlegt. Þegar þeir eru búnir að því þá er verkið boðið út og það tekur það einhvern tíma. Svo byrja einhverjir að smíða.“
Þrátt fyrir að upptalningin hér að ofan hljómi eins og langt og strangt ferli vill Funi meina að gróf áætlun frá framkvæmdasýslu ríkisins geri ráð fyrir því að hægt verði að hefja starfsemi í Gunnarsholti næsta haust. Eftir um það bil sex mánuði
„Sex mánuðir eru alveg langur tími í þessum heimi,“ viðurkennir Funi. En hann telur að unnið sé eins hratt og hægt sé.
„Fyrir mína parta hefur mér fundist vinnslan vera rosalega flott. Það er unnið af miklu kappi og það er ekki tilfinning mín að það sé neinn að draga lappirnar. En við þurfum bara að fara eftir lögum.“
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta og barnamálaráðherra, segir núverandi ríkisstjórn sitja uppi með mikinn vanda frá fyrri ríkisstjórn sem sinnti ekki þessum málaflokki.
„Það er þannig að svona úrræði þau eru ekki reist upp á viku, það eru ekki gripin út úr engu. Það er bara verið að vinna að þessu öllu og við erum að setja í gang áætlun sem byggir á skýrslu frá 2023. Þannig við erum að gera allt sem við getum og þeir sem vinna að þessum málum þeir gera allt sem þeir geta til að finna úrræði fyrir börn í vanda. Það er bara staðan, við sitjum uppi með fortíðarvanda,“ segir Ásthildur í samtali við mbl.is.
Aðspurð hvort komi til greina að nýta Háholt sem lausn á þeim húsnæðisvanda sem blasir við þegar kemur að meðferðarúrræðum, segir hún það ekki vera ákjósanlega lausn af ýmsum ástæðum.
„Meðal annars vegna fjarlægðar barna frá ástvinum sínum og svo er hefur reynst erfitt að manna með fagaðilum starfsemi sem er úti á landi. Það reyndist erfitt með þessa starfsemi á sínum tíma, hefur mér skilist. Þetta snýst ekki bara um að finna húsnæði, heldur líka að gæta að réttindum barna, eins og til dæmis hvað varðar nálægð við ástvini.“