Fram kom í máli Skúla Helgasonar, borgarfulltrúa Samfylkingar, í umræðum um nýjan meirihlutasáttmála borgarstjórnar á borgarstjórnarfundi í dag að meirihlutinn hyggst ekki veita Alvotech leyfi til þess að byggja leikskóla sem myndi þjóna starfsfólki fyrirtækisins.
Þá kom jafnframt fram í máli Skúla að ekki væri búið að taka afstöðu til þess hvort heimila ætti daggæslu á vinnustað, en Arion banki hefur boðað slíkt fyrir hönd starfsmanna.
Fyrri meirihluti hafði tekið jákvætt í umleitanir Alvotech í málinu en ný vinstri stjórn hefur aðra sýn á hlutina.
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðismanna í borginni, segir niðurstöðuna vonbrigði.
„Ég lýsi verulegum vonbrigðum með þá ákvörðun meirihlutans að vinna ekki með atvinnulífi að lausn leikskóla- og daggæsluvandans í Reykjavík. Borgin hefur ekki náð neinum árangri í leikskólamálum síðastliðinn áratug, þvert á móti hefur vandinn stigmagnast. Við þurfum að vera lausnamiðuð og leita skapandi leiða til að mæta fjölskyldum í borginni. Það er forgangsmál í mínum huga“, segir Hildur.
Ekki náðist í Skúla við vinnslu fréttarinnar en sjá má í meirihlutasáttamálanum að áætlanir eru um að fjölga leikskólaplássum í borginni líkt og áætlanir hafa verið um árum saman.
„Við ætlum að fjölga leikskólaplássum verulega með opnun nýrra leikskóla og stækkun eldri leikskóla án þess að taka skref í átt að fyrirtækjavæðingu,“ segir í sáttmálanum
Að sögn Hildar liggur fyrir borgarstjórnarfundinum tillaga Sjálfstæðisflokksins um að borgin styðji enn frekar við stofnun leikskóla eða daggæslu á vinnustöðum foreldra.
„Af ummælunum má ljóst vera að tillagan verður felld. Það rímar raunar við annað í þessum meirihlutasáttmála. Alls kyns aðgerðir um niðurgreitt húsnæði, niðurgreidda þjónustu og aukin útgjöld, en nákvæmlega engar aðgerðir til að styðja við atvinnulíf og verðmætasköpun í Reykjavík. Ekki eitt aukatekið orð. Hér virðist skorta allan skilning á því að í borginni þurfi kröftuga verðmætasköpun svo hægt sé að standa undir allri velferðinni. Þetta er algjört grundvallaratriði. Nema þær ætli sér að hækka skatta?“, segir Hildur að lokum.