Í fangelsi með 1,1 milljón á tímann

Heimild fangelsismálayfirvalda til að breyta óskilorðsbundnu fangelsi í samfélagsþjónustu hefur verið útvíkkað mikið. Nú er mögulegt að menn sem hlotið hafa gríðarháar sektir taki þær út í þjónustu.

Á þetta bendir Helgi I. Jónsson, fyrrverandi hæstaréttardómari sem er gestur í nýjasta þætti Spursmála. Hann er mjög gagnrýninn á fyrirkomulagið og segir það raunar stangast á við 2. grein stjórnarskrárinnar. Lög sem hafa verið í gildi, með breytingum, frá 1995 feli framkvæmdavaldinu heimild til að gera dómsorð að engu.

Á þeim tíma sem liðinn er hefur heimildin auk þess verið útvíkkuð gríðarlega. Hún náði yfir allt að þriggja mánaða óskilorðsbundna dóma í fyrstu en nú er ramminn allt að tvö ár.

Himinháar  fésektir

„Þetta á líka við um fésektir þar sem getur verið um himinháar fésektir að ræða, þar sem menn greiða ekki sekt innan ákveðins tíma þá eiga þeir að fara í fangelsi allt að einu ári. En í þess stað geta menn tekið það út með einhverjum dagafjölda í samfélagsþjónustu á, myndi ég segja, gríðarlega góðu kaupi,“ segir Helgi í viðtalinu.

Sem dæmi má taka nýlegan dóm þar sem tveir menn voru dæmdir til greiðslu sektar að fjárhæð 1,1 milljarður króna. Ef þeir greiða hana ekki varðar það árs fangavist. Ekkert segir að þessa sektarfjárhæð verði ekki mögulegt að „sitja af sér“ í formi samfélagsþjónustu. Lögum samkvæmt getur hún varað allt að 960 klst. Í þessu tiltekna máli myndi „kaupið“ í þjónustunni þá nema 1.145 þúsund krónum á tímann.

Tilefni viðtalsins var grein sem Helgi hefur skrifað og birt í afmælisriti sem gefið var út í lok síðasta árs í tilefni af sjötugsafmæli Markúsar Sigurbjörnssonar, fyrrum forseta Hæstaréttar Íslands.

Viðtalið við Helga má sjá og heyra í heild sinni hér að neðan:

Hólmsheiði Flestir vilja í lengstu lög losna við að komast …
Hólmsheiði Flestir vilja í lengstu lög losna við að komast bak við lás og slá. Samfélagsþjónusta er þar kostur. Morgunblaðið/Árni Sæberg
Helgi I. Jónsson
Helgi I. Jónsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert