Félagsmenn innan Kennarasambands Íslands hafa samþykkt kjarasamning sambandsins við ríki og sveitarfélög.
Í tilkynningu frá Kennarasambandinu segir að samningurinn hafi verið samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta. Sögðu 7.878 félagsmenn, eða 92,85%, já við tillögunni. Alls sögðu 517, eða 6,09%, nei.
Þá voru 90 auðir seðlar sem samsvara 1,06%.
Atkvæðagreiðsla um samninginn hófst 28. febrúar.
Um er að ræða í raun fjórðu innanhússtillögu ríkissáttasemjara og var hún undirrituð af samninganefndum síðla kvölds 25. febrúar í Karphúsinu.
Kjarasamningurinn gildir út mars 2028 og felur í sér 24 prósenta launahækkanir yfir tímabilið.
Í samningunum er forsenduákvæði sem gerir kennurum kleift að segja honum upp á samningstímanum, séu ákveðin skilyrði ekki uppfyllt.
Fréttin verður uppfærð.