„Kennarastéttin er greinilega vel vöknuð“

Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, á opnum fundi sambandsins …
Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, á opnum fundi sambandsins í nóvember. mbl.is/Árni Sæberg

Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segir kennarastéttina vaknaða og reiðubúna að takast á við enn stærri hlutverk en áður. Hann fundar með ríkissáttasemjara í dag þar sem næstu skref verða skipulögð.

Félagsmenn innan Kennarasambandsins samþykktu kjarasamning kennara við ríkið og sveitarfélög með afgerandi meirihluta en atkvæðagreiðslu lauk í dag.

Um er að ræða í raun fjórðu innanhússtillögu ríkissáttasemjara og sögðu 7.878 félagsmenn, eða 92,85%, já við tillögunni.

Á kjörskrá voru 11.115 og greiddu 8.485, eða 76,34%, atkvæði.

Þúsundir kennara sótt kynningar sambandsins

Í samtali við mbl.is segir Magnús tilfinninguna vera góða og í samræmi við það andrúmsloft sem hafi verið á fundum Kennarasambandsins síðan samningar voru undirritaðir, en þar hafa verið haldnar kynningar um samningana sem „þúsundir“ kennarar hafa sótt.

„Þetta var samþykkt með afgerandi hætti og áframhaldandi umboð er held ég nokkuð skýrt til þess að vinna að þeim markmiðum sem við erum búin að vera að vinna eftir síðustu tvö árin eiginlega.“

Fjárfesting í framtíð

Þá segir Magnús sambandið geta verið enn ánægðara, bæði með hversu góð þátttaka hafi verið í kosningunni sem og með hve vel sóttar kynningarnar voru sem sambandið stóð fyrir frá undirritun samninga.

„Kennarastéttin er greinilega vel vöknuð og tilbúin til þess að takast á við enn stærri hlutverk heldur en hefur verið áður,“ segir formaðurinn og heldur áfram:

„Þessi fjárfesting núna er fjárfesting í framtíð sem við þökkum fyrir að stjórnvöld hafi tekið að sér með okkur. Núna náum við vonandi að vinna áfram saman í að styrkja stöðu kennarastarfs í landinu og þar með skólastarfs.“

Fyrsti vinnufundur í dag

Örfáum mínútum eftir undirritun samninga í Karphúsinu sagði Magnús samkomulagið vera fyrsta skrefið í langri vegferð. 

„Ég á að mæta á fund til ríkissáttasemjara klukkan 15 til þess að skipuleggja næstu skref þannig ég fékk nú ekki langt frí hjá honum,“ segir Magnús spurður um næstu skref.

„[Það er] fyrsti vinnufundur núna í dag og það hefur alveg legið ljóst fyrir að það er mikið fyrir höndum og við erum núna að fara að setjast niður og skoða það. Enda lítum við þannig á það að þessi niðurstaða sé alveg skýrt merki frá kennurum að þetta hafi verið gæfuspor að Kennarasambandið kom saman að þessum viðræðum.“

Magnús Þór Jónsson og Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari sameinast á ný …
Magnús Þór Jónsson og Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari sameinast á ný í dag eftir stutt hlé. mbl.is/Árni Sæberg

Fundir á næstunni munu marka næstu skref

Þá segir Magnús að undirbúningur hafi vissulega verið í gangi en að aðilar hafi viljað bíða eftir niðurstöðu kosninganna áður en næstu skref yrðu tekin.

„Nú er sú niðurstaða komin og þá er bara fundur í dag og fundir á næstunni sem fara þá að marka næstu skref sem snúa að þessum þáttum sem við ætlum að skoða á næstu tveimur árum eins og virðismatsvegferðin, verkáætluninni og öllum þessum hugmyndum um önnur kjör - hvernig við ætlum að tækla þau.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert