Fækka ætti dómurum við Hæstarétt úr sjö í fimm þar sem málum þar hefur fækkað það verulega eftir stofnun Landsréttar að ekki telst þörf á fleiri dómurum við réttinn. Þetta er meðal þess sem kemur fram í tillögum hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar sem kynnti tillögur sínar í dag.
Bent er á að rétturinn hafi aðeins dæmt að meðaltali í 30-60 málum á ári, en þrátt fyrir það hafi dómurum við réttinn aðeins verið fækkað úr níu í sjö þegar Landsréttur kom til sögunnar árið 2019.
Óalgengt er að Hæstiréttur sé fullskipaður í málum, þrátt fyrir að dómstóllinn sé fordæmisgefandi, en aðeins í sérlega mikilvægum málum eiga sjö dómarar sæti í málum. Hæstiréttur tekur þó aðeins fyrir mál sem talin eru hafa verulegt almennt gildi, varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni eða að séð verði að málsmeðferð fyrir neðri dómstigum hafi verið stórlega ábótavant eða dómur bersýnilega rangur.
Hagræðingarhópurinn telur að þessi breyting geti skilað 100 milljóna sparnaði yfir fimm ára tímabil.
Auk þess er lagt til að sérstök kjör hæstaréttardómara við starfslok verði afnumin. Byggjast sérkjörin á túlkun á ákvæði stjórnarskrár þar sem dómarar við réttinn sem hafa náð 65 ára aldri hafa óskað eftir því að vera leystir frá störfum fyrir hefðbundinn eftirlaunaaldur. Með því og umræddri lagatúlkun hafa dómararnir fengið full laun út ævina í stað eftirlauna, líkt og myndi gerast ef þeir færu á aldur. Ítarlega var fjallað um þetta í Heimildinni í fyrra og gagnrýndi fyrrverandi dómari við réttinn þetta fyrirkomulag harðlega.
Hagræðingarhópurinn telur ekki hægt að meta bein áhrif af því að afnema þessi réttindi og ólíklegt að sparnaðurinn komi fram fyrr en eftir mörg ár. Auk þess krefjist breytingar sem þessar að öllum líkindum stjórnarskrárbreytingar og verði ekki afturvirkar. Er horft til þess að þetta gæti komið til framkvæmda árið 2029.