Prentun þingskjala kostar tugi milljóna árlega

Meðal þeirra ríkisstjórnarfrumvarpa sem prentuð eru út eru fjárlögin. Þau …
Meðal þeirra ríkisstjórnarfrumvarpa sem prentuð eru út eru fjárlögin. Þau eru þó prentuð út í fleiri eintökum en 30, líkt og önnur frumvörp. mbl.is/Eggert

Hætta ætti prentun þingskjala sem kostar tugi milljóna árlega samkvæmt hagræðingartillögum starfshóps forsætisráðuneytisins sem kynntar voru á  blaðamannafundi fyrir skömmu. Í dag eru allavega 30 eintök af öllum stjórnarfrumvörpum send frá ráðuneytum til Alþingis.

Þetta er þó ekki í fyrsta skiptið sem málið hefur verið rætt, því í síðasta mánuði var það til umræðu á ríkisstjórnarfundi. Samkvæmt upplýsingum sem mbl.is fékk þá hefur prentuðum eintökum fækkað mikið síðustu árin, en árið 2019 voru 120 eintök prentuð, þar af 80 fyrir Alþingi.

Fulltrúar flokka vilja áfram fá útprentað

Ríkisstjórnin vildi afleggja þetta fyrirkomulag, en ósk kom frá Alþingi um að halda áfram að prenta þau 30 eintök sem væru afhent núna. Hafa eintökin legið frammi á Alþingi.

Ósk Alþingis kom í kjölfar fundar starfandi þingforseta með formönnum þingflokka í upphafi mánaðarins, en þá mómæltu fulltrúar nokkurra flokka því að prentuninni yrði hætt.

Í tillögum starfshópsins sem kynntar voru í dag kemur fram að stærstur hluti þeirra 20 milljóna árlega kostnaðar sem fellur til vegna prentunarinnar sé greiddur af Stjórnarráðinu, en hluti af skrifstofu Alþingis.

Kostnaður af förgun

„Misjafnt er hve stór hluti prentaðra stjórnarmála er nýttur af þingmönnum og starfsfólki þingsins. Stundum gengur allt upplagið út en oftar en ekki er aðeins hluti þess notaður. Við lok hvers þings er þeim málum og öðrum þingskjölum sem ekki hafa verið notuð fargað. Af því hlýst einnig nokkur kostnaður. Lagt er til að þessi prentun verði alfarið lögð af,” segir í tillögunum.

Í tillögunum er einnig nefnt að miklir möguleikar séu í að stafvæða fleiri ferla sem nú eru á pappír. Slíkir ferlar geti aukið samvinnu stofnana og gæði þjónustu í gegnum island.is. Leggja á sérstaka áherslu á heilbrigðiskerfið í þessum málum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert