Réðst á þrjá og hótaði konu með haglabyssu

Maðurinn var m.a. dæmdur fyrir að hóta fyrrverandi sambýliskonu sinni …
Maðurinn var m.a. dæmdur fyrir að hóta fyrrverandi sambýliskonu sinni með haglabyssu. Ljósmynd/Colourbox

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt tæplega þrítugan karlmann í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir ýmis brot, m.a. líkamsárásir, rán og þjófnað.

Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 21. febrúar, að málið hafi verið höfðað með tveimur ákærum á hendur Kristleifi Kristleifssyni. Sú fyrri var gefin út af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu í nóvember. Hún er alls í sjö liðum.

Þar var hann ákærður fyrir brot í nánu sambandi með því að hafa 16. desember 2021 ógnað lífi, heilsu og velferð þáverandi sambýliskonu sinnar á alvarlegan hátt, en Kristleifur hótaði henni með því að beina að henni haglabyssu þar sem hún lá í rúmi í svefnherbergi íbúðarinnar.

Hann var einnig ákærður fyrir fíkniefna- og vopnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum 8,39 g af amfetamíni, 13,76 g af marijúana og 11 stykki af LSD, auk haglabyssu, án þess að hafa öðlast skotvopnaleyfi. Hann geymdi ekki skotvopnið í læstri hirslu. Allt framangreint fann lögregla við öryggisleit á Kristleifi og við leit á þáverandi dvalarstað hans.

Kristleifur var einnig ákærður fyrir án með því að hafa …
Kristleifur var einnig ákærður fyrir án með því að hafa laugardaginn 6. maí 2023 ógnað manni með hníf utandyra við veitingastað Domino's við Nóatúni 17 í Reykjavík. Hann neyddi mannsins svo til að millifæra 100.000 kr inn á bankareikning í sinni eigu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rændi mann við pítsustað

Þá var hann ákærður fyrir rán með því að hafa laugardaginn 6. maí 2023 ógnað manni með hníf fyrir utan veitingastað Domino's að Nóatúni 17 í Reykjavík. Þar neyddi Kristleifur manninn til að millifæra 100.000 kr. inn á bankareikning sinn, sem maðurinn gerði.

Í fyrri ákærunni er hann enn fremur ákærður fyrir þjófnaðar- og vopnalagabrot, gripdeild, umferðarlagabrot og nytjastuld.

Maðurinn var ákærður fyrir þrjár sérstaklega hættulegar líkamsárásir.
Maðurinn var ákærður fyrir þrjár sérstaklega hættulegar líkamsárásir. Ljósmynd/Colourbox

Lagði til tveggja manna með sporjárni og sló einn í höfuð með felgulykli

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gaf síðan út seinni ákæru á hendur Kristleifi í janúar.

Þar var hann ákærður fyrir þrjár sérstaklega hættulegar líkamsárásir. Hann réðist á mann í ágúst í fyrra innandyra í gistiskýli og traðkaði m.a. á höfði hans auk þess sem hann lagði til hans með sporjárni með þeim afleiðingum að maðurinn hlaut opið sár á vinstri öxl og sár á hægri upphandlegg.

Þá lagði Kristleifur til annars manns með sporjárni á sama tíma og að ofan greinir með þeim afleiðingum að maðurinn hlaut 4 cm langan skruð á hægri framhandlegg.

Í september veittist Kristleifur með ofbeldi að manni og sló hann nokkrum sinnum í höfuðið með felgulykli fyrir utan verslun við Ásvallagötu í Reykjavík.

Á langan sakaferil

Kristleifur játaði sök í þinghaldi sem fór fram í febrúar. Fram kemur í dómi héraðsdóms að hann eigi að baki þó nokkurn sakaferil sem nái aftur til ársins 2015.

Héraðsdómur segir að þrátt fyrir að Kristleifur hafi játað sök þá sé ekki unnt að líta fram hjá því að um þrjár sérstaklega hættulegar líkamsárásir sé að ræða, auk þess sem hann er einnig sakfelldur fyrir hótunarbrot og rán. Þá hafi hann einnig áður gerst sekur um ofbeldis- og auðgunarbrot.

Dæmdar miskabætur

Þá var hann sviptur ökuréttindum í þrjú ár og gert að greiða fyrrverandi sambýliskonu sinni 500.000 kr. í miskabætur.

Loks gerði dómstóllinn fíkniefnin upptæk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert