„Skellur fyrir allt samfélagið“

Kristján Þór Kristjánsson, hótelstjóri Hótels Ísafjarðar, segir það verða skell …
Kristján Þór Kristjánsson, hótelstjóri Hótels Ísafjarðar, segir það verða skell fyrir allt samfélagið ef flug leggist af til Ísafjarðar. mbl.is/Sigurður Bogi

Kristján Þór Kristjánsson, hótelstjóri Hótels Ísafjarðar, segir það ömurlegar fréttir að Icelandair hyggist leggja af flug til Ísafjarðar.

„Þetta eru alveg skelfilegar fréttir. Okkur líst ekkert á þetta og teljum að þetta muni skaða ferðaþjónustuna á svæðinu,“ segir Kristján í samtali við mbl.is

Hefur áhrif á heilbrigðisstofnunina

Flestir sem koma á hótelið til Kristjáns yfir vetrartímann koma fljúgandi. „Þó það sé ekki hávertíð hjá okkur þá skiptir það máli en eins koma margir ferðamenn með flugi yfir sumartímann, þó ég hafi ekki nákvæma tölu á því.“

Kristján segir þá að ef flug leggist af komi það í veg fyrir alla möguleika á framþróun á helgarferðum og öðrum styttri ferðum vestur.

„Fundarhöld, sölumenn sem koma og iðnaðarmenn sem eru að koma dag og dag, það á eftir að verða meira vesen fyrir þá að komast til okkar.

Svo er þetta ekki bara ferðaþjónustan. Þetta verður skellur fyrir allt samfélagið. Heilbrigðisstofnunin notar flugið mikið og svo er fólk að fara í læknisheimsóknir og annað.

Ég trúi ekki öðru en að einhverjir sjái sér tækifæri í þessu. Norlandair er t.d. að fljúga á Bíldudal í dag og hafa verið að gera í einhvern tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert