Skora á stjórnvöld að gera nýjan flugvöll

Skorað er á stjórnvöld að huga að nýjum flugvelli á …
Skorað er á stjórnvöld að huga að nýjum flugvelli á Ísafirði. Morgunblaðið/Eggert

Innviðafélag Vestfjarða hefur brugðist við tilkynningu Icelandair um að flugfélagið hyggist hætta að fljúga til Ísafjarðar með því að skora á ríkisstjórina að huga að stækkun flugvallar á Ísafirði. 

Fram kom í tilkynningu Icelandair í gær að félagið ætlaði að losa sig við Bombardier flugfélagar og þar með væri flugi til Ísafjarðar sjálfhætt. 

„Þessi ákvörðun felur í sér bakslag fyrir samfélagið á Vestfjörðum og skapar óvissu um framtíðarhorfur svæðisins. Ákvörðun Icelandair undirstrikar jafnframt hversu brýnt það er að huga af alvöru að staðsetningu og uppbyggingu flugvallarins á Ísafirði til að auka flugöryggi og aðgengi mismunandi vélakosts,“ segir í tilkynningu innviðafélagsins. 

Þá segir að öruggar, tíðar og áreiðanlegar flugsamgöngur milli Ísafjarðar og Reykjavíkur séu lykilforsenda fyrir öryggi íbúa, lífsgæði þeirra og áframhaldandi samfélagslega og efnahagslega þróun svæðisins.

Stjórnvöld bregðist hratt við

„Jafnframt dregur þessi staða skýrt fram nauðsyn þess að stjórnvöld bregðist hratt við með auknum fjárfestingum í öðrum samgönguinnviðum, ekki síst á landi, til að tryggja stöðugleika og framtíð vaxtar og viðgangs á Vestfjörðum.

Innviðafélag Vestfjarða hvetur stjórnvöld eindregið til að grípa þegar til að hefja staðarvalskönnun um nýjan flugvöll á Ísafirðir og tryggja reglulegar flugsamgöngur sem og öflugar samgöngur á landi og styðja þannig við áframhaldandi efnahagsævintýri á Vestfjörðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert