Hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar vill leggja niður ráðstöfunarfé ráðherra, sem jafnan er kallað skúffufé ráðherra. Með því á að spara um 30 milljónir árlega, eða 150 milljónir yfir 5 ára tímabil. Þetta er meðal þess sem lesa má í tillögum hópsins.
„Þetta eru úrelt vinnubrögð sem þekkjast ekki hjá þeim þjóðum sem við viljum bera okkur saman við,” segir í kynningu hópsins. Lagt er til að ráðist verði í þessa breytingu strax á næsta ári.
Á síðasta ári útdeildu sjö ráðherrar samtals 9,1 milljón af skúffufé í ýmis verkefni.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ráðstöfunarfé ráðherra vekur upp umtal og hafa aðrir áður lagt til að það yrði fellt niður. Þá er ólíklegt að tillagan muni mæta mikilli andstöðu hjá Sjálfstæðisflokknum ákveði meirihlutinn að leggja þetta til á þingi. Þannig var þetta á meðal þeirra atriða sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði til þegar óskað var eftir sparnaðartillögum í upphafi árs.
5. Að fella niður ráðstöfunarfé ráðherra (oft kallað skúffufé). Ógagnsæ meðferð opinbers fé frá ráðherra til þeirra sem leita til hans með einhverjum leiðum. Ekki háar fjárhæðir en mikilvægt fordæmi hvernig ekki á að fara með skattfé almennings. Tæplega 30 milljónir.
— Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (@aslaugarna) January 9, 2025