„Sorglegt“ að pólitískar kreddur ráði för

Einar Þorsteinsson gagnrýnir ákvörðun meirihlutans.
Einar Þorsteinsson gagnrýnir ákvörðun meirihlutans. Samsett mynd

Ein­ar Þor­steins­son, odd­viti Fram­sókn­ar­flokks og fyrr­ver­andi borg­ar­stjóri, seg­ir það sorg­legt að meiri­hlut­inn hygg­ist ekki standa við áform sem miðuðu að því að heim­ila Al­votech að byggja leik­skóla í Reykja­vík. Hann seg­ir póli­tíska kreddu ráða för í ákvörðun meiri­hlut­ans sem sé á móti einkafram­taki.

Eft­ir sitja for­eldr­ar með sárt ennið og að hægt verði á upp­bygg­ingu leik­skóla­plássa með þess­ari ákvörðun.

Segja nei við for­eldra 

„Mér finnst ótrú­lega sorg­legt að þess­ir flokk­ar láti póli­tíska kreddu vega þyngra í þess­ari ákvörðun en að horfa til skyn­sam­legr­ar lausn­ar um að efna það lof­orð sem þau gáfu for­eldr­um í borg­inni um að brúa bilið. Þess í stað vilja þau standa fyr­ir fram­an for­eldra sem bíða eft­ir leik­skóla­pláss­um og segja nei! Okk­ar póli­tíska hug­mynda­fræði leyf­ir ekki vinnu­stöðum að koma inn í leik­skóla­rekst­ur eða dag­gæslu­úr­ræðarekst­ur. Þeirra póli­tíska hug­mynda­fræði er á móti einkafram­taki,“ seg­ir Ein­ar.

Hann seg­ir að vinnustaðir hafi lagt mikið af mörk­um til þess að koma að lausn­um í leik­skóla­vanda borg­ar­inn­ar. Þannig hafi Al­votech t.a.m. lofað því að um helm­ing­ur leik­skóla­plássa myndi verða fyr­ir starfs­fólk og um helm­ing­ur fyr­ir önn­ur börn í hverf­inu.

Ekki gert í hagnaðarskyni 

Ein­ar seg­ir að í borg­ar­stjóratíð sinni hafi hann hvatt fyr­ir­tæki til að koma að lausn­um í leik­skóla­mál­um og Al­votech hafi fyrst fyr­ir­tækja brugðist við því.

„Al­votech er ekki að gera þetta í hagnaðarskyni, þetta er gert með sam­fé­lags­lega ábyrgð í huga. Helm­ing­ur pláss­anna átti að fara til starfs­fólks og helm­ing­ur til annarra barna í hverf­inu. Þannig myndi Al­votech leggja til hús­næðið en við borga með barni líkt og gert er í öll­um öðrum sjálf­stætt rekn­um leik­skól­um. Það er óskilj­an­legt að póli­tísk­ar kredd­ur vinstri flokk­anna beri með sér að ekki sé vilji til að taka vel í út­rétta hönd fyr­ir­tæk­is­ins,“ seg­ir Ein­ar.

Hann seg­ir málið grafal­var­legt og að borg­ar­stjórn­ar­meiri­hlut­inn skuldi for­eldr­um svör um það hvers vegna þessu er slegið af borðinu.

Vonaði að niðurstaðan yrði önn­ur 

Spurður hvort þessi niðurstaða væri ekki fyr­ir­séð í ljósi þess að vinstri flokk­ar væru al­mennt á móti aðkomu einkaaðila að rekstri í skóla­kerf­inu þá seg­ir Ein­ar að hann hafi haft von um annað.

„Ég vonaði að þess­ir flokk­ar myndu axla ábyrgð í þessu máli. For­eldr­ar eru í ör­vænt­ingu að bíða eft­ir leik­skóla­plássi mánuðum sam­an. All­ir þess­ir flokk­ar hafa farið fram með þau lof­orð í kosn­ing­um að taka inn 12 mánaða börn á leik­skól­ana og þau eru langt frá því að ná því mark­miði,“ seg­ir Ein­ar.

 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert