Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokks og fyrrverandi borgarstjóri, segir það sorglegt að meirihlutinn hyggist ekki standa við áform sem miðuðu að því að heimila Alvotech að byggja leikskóla í Reykjavík. Hann segir pólitíska kreddu ráða för í ákvörðun meirihlutans sem sé á móti einkaframtaki.
Eftir sitja foreldrar með sárt ennið og að hægt verði á uppbyggingu leikskólaplássa með þessari ákvörðun.
„Mér finnst ótrúlega sorglegt að þessir flokkar láti pólitíska kreddu vega þyngra í þessari ákvörðun en að horfa til skynsamlegrar lausnar um að efna það loforð sem þau gáfu foreldrum í borginni um að brúa bilið. Þess í stað vilja þau standa fyrir framan foreldra sem bíða eftir leikskólaplássum og segja nei! Okkar pólitíska hugmyndafræði leyfir ekki vinnustöðum að koma inn í leikskólarekstur eða daggæsluúrræðarekstur. Þeirra pólitíska hugmyndafræði er á móti einkaframtaki,“ segir Einar.
Hann segir að vinnustaðir hafi lagt mikið af mörkum til þess að koma að lausnum í leikskólavanda borgarinnar. Þannig hafi Alvotech t.a.m. lofað því að um helmingur leikskólaplássa myndi verða fyrir starfsfólk og um helmingur fyrir önnur börn í hverfinu.
Einar segir að í borgarstjóratíð sinni hafi hann hvatt fyrirtæki til að koma að lausnum í leikskólamálum og Alvotech hafi fyrst fyrirtækja brugðist við því.
„Alvotech er ekki að gera þetta í hagnaðarskyni, þetta er gert með samfélagslega ábyrgð í huga. Helmingur plássanna átti að fara til starfsfólks og helmingur til annarra barna í hverfinu. Þannig myndi Alvotech leggja til húsnæðið en við borga með barni líkt og gert er í öllum öðrum sjálfstætt reknum leikskólum. Það er óskiljanlegt að pólitískar kreddur vinstri flokkanna beri með sér að ekki sé vilji til að taka vel í útrétta hönd fyrirtækisins,“ segir Einar.
Hann segir málið grafalvarlegt og að borgarstjórnarmeirihlutinn skuldi foreldrum svör um það hvers vegna þessu er slegið af borðinu.
Spurður hvort þessi niðurstaða væri ekki fyrirséð í ljósi þess að vinstri flokkar væru almennt á móti aðkomu einkaaðila að rekstri í skólakerfinu þá segir Einar að hann hafi haft von um annað.
„Ég vonaði að þessir flokkar myndu axla ábyrgð í þessu máli. Foreldrar eru í örvæntingu að bíða eftir leikskólaplássi mánuðum saman. Allir þessir flokkar hafa farið fram með þau loforð í kosningum að taka inn 12 mánaða börn á leikskólana og þau eru langt frá því að ná því markmiði,“ segir Einar.