Styttist í eldgos sem verður með stuttum fyrirvara

Segir í tilkyninngunni að fyrirvarinn verði líklega stuttur.
Segir í tilkyninngunni að fyrirvarinn verði líklega stuttur. mbl.is/Árni Sæberg

Landris heldur áfram á svipuðum hraða og síðustu vikur. Magn kviku undir Svartsengi er nú meira en það sem var áætlað fyrir eldgosið sem hófst á Sundhnúkagígröðinni 20. nóvember og bendir allt til þess að kvikuhlaup og eldgos geti hafist á næstu dögum eða vikum. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands. 

Gert er ráð fyrir að fyrirvari fyrir eldgos verði stuttur en í síðustu tveimur eldgosum liðu 30 til 40 mínútur frá því að fyrstu merki um skjálftahrinu sáust og þar til eldgos hófst. 

Talið er líklegast að kvika myndi fyrst koma upp á svæðinu milli Sundhnúks og Stóra-Skógfells en það hefur verið tilfellið í sex gosum af þeim sjö sem hafa orðið frá því að eldvirknin hófst í árslok 2023. 

Minnkuð jarðskjálftavirkni á svæðinu

Jarðskjálftavirkni í kringum Sundhnúk hefur minnkað örlítið síðustu daga ef litið er til síðustu vikna. Er hins vegar tekið fram í tilkynningunni að slæmt veður síðustu daga geti haft áhrif á mælakerfið og takmarkað næmni minnstu jarðskjálftanna. 

Vegna endurtekinna atburða á Sundhnúksgígaröðinni, þar sem kvikugangar og gossprungur hafa myndast, hefur spenna í jarðskorpunni minnkað með hverju gosi sem þýðir að sífellt færri og minni skjálftar mælast á svæðinu vikurnar og dagana fyrir gos en gerðu í aðdraganda fyrstu eldgosanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert