Samstarfsflokkarnir í borgarstjórn Reykjavíkur, Samfylking, Píratar, Sósíalistaflokkur Íslands, Flokkur fólksins og Vinstri græn, hafa lagt fram sína fyrstu aðgerðaáætlun á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur á grundvelli samstarfsyfirlýsingar sem var nýlega kynnt.
„Flokkanir ganga samhentir til verks á sterkum félagslegum grunni og verður lífsgæðum borgarbúa forgangsraðað eins og sjá má í þessari fyrstu aðgerðaráætlun. Allar tillögurnar í henni miða að því að styrkja grunnþjónustu enn frekar en um leið sýna ráðdeild og útsjónarsemi við rekstur Reykjavíkurborgar,“ segir í tilkynningu frá meirihlutanum í borginni.
Húsnæðismál, leikskólar og ráðdeild á meðal forgangsmála
Þá kemur fram að í aðgerðaráætluninni séu tuttugu og fimm tillögur sem komi allar til framkvæmda í lýðræðislega kjörnum ráðum og nefndum borgarinnar þar sem endanleg útfærsla fái faglega umræðu og afgreiðslu.
Tekið er fram að á meðal forgangsmála séu húsnæðisuppbygging, fjölgun leikskóla, ráðdeild og skilvirkni. Sjá nánar helstu atriði flokkanna hér fyrir neðan.
- Við höfum hug á mæta aukinni húsnæðisþörf með fjölbreyttum lausnum bæði á kjörtímabilinu en líka leggja góðan grunn til framtíðar.
- Samtal við verkalýðshreyfinguna og ríkið um nýjar leiðir til uppbyggingar er hafið sem og leiðir til að hraða uppbyggingu almennt í borginni.
- Við munum leita allra leiða til að fjölga plássum í leikskólum og bæta starfsaðstæður í leik og grunnskólum í samstarfi við börn og fjölskyldur, starfsfólk og fræðasamfélagið.
- Við munum endurskoða og samþætta alla vinnu er varða forvarnir, samvinnu um þær og setja af stað sérstaka vinnu sem tengist ofbeldi gegn börnum og ungmennum.
- Við ætlum að efla beint og milliliðalaust samtal við íbúa um alla borg með nýjum og fjölbreyttum lýðræðislegum leiðum og fjölga borgaraþingum.
- Verið er að auka skilvirkni í stjórnsýslunni, þar sem tekið er utan um eignaumsýslu, fyrirkomulag innri og ytri upplýsingagjafar, innkaup og forgangsröðun fjárfestinga, þar með talið í stafrænum lausnum.
- Starfsfólk borgarinnar þekkir sitt starfsumhverfi best og því munum við leita til þeirra um hugmyndir að því hvernig við getum hagrætt fyrir auknum útgjöldum. Við munum einnig leita til borgarbúa og notenda þjónustunnar sem þekkja þjónustuna best.
Hér fyrir neðan með fylgjast með útsendingu frá fundi borgarstjórnar Reykjavíkur sem hófst kl. 12 í dag.